Innlent

Verið að skoða starfshætti vegna innheimtu bílalána

Fjármögnunarfyrirtæki hafa kallað inn fjölda bíla vegna vanskila. Stjórnvöld eru nú með starfshætti slíkrar starfsemi til endurskoðunar. Mynd/GVA
Fjármögnunarfyrirtæki hafa kallað inn fjölda bíla vegna vanskila. Stjórnvöld eru nú með starfshætti slíkrar starfsemi til endurskoðunar. Mynd/GVA

Starfshættir fjármögnunarfyrirtækja eru til skoðunar hjá nefnd þriggja ráðuneyta, félagsmála-, dómsmála- og viðskiptaráðuneytis. Þar er sérstaklega horft til réttarstöðu lántaka gagnvart fyrirtækjunum, en margir hafa kvartað yfir því að hart sé gengið fram í að innheimta bílalán.

Gylfi Magnús-son viðskiptaráðherra segir að vinnan sé vel á veg komin og nefndin nái vonandi að skila af sér í ágúst. Hlutverk hennar sé að fara yfir stöðu viðskiptavina og rétt þeirra og hvað sé hægt að gera til að bæta hana.

„Það hefur verið mikið um að fólk beri sig illa eftir svona viðskipti, meðal annars vegna bílalána. Til dæmis hefur verið deilt um hvernig á að meta bíla sem teknir eru upp í skuld. Við erum að meta þetta allt saman."

Gylfi segir ýmislegt benda til að margt megi betur fara í þessum efnum, en vill þó ekki gefa út yfirlýsingar fyrr en eftir að nefndin hefur lokið störfum.

Runólfur Ólafsson, forstjóri Félags íslenskra bifreiðaeigenda, segir að möguleikar á skuldbreytingu og lengingu lána, sem fyrirtækin buðu upp á, hafi bætt ástandið. Það séu hins vegar aðeins tímabundin úrræði og nauðsynlegt sé að finna varanlegar lausnir á stöðunni.

Runólfur segir að meðal þess sem rætt hafi verið í nefndinni sé að bjóða fólki upp á að breyta lánunum úr erlendri mynt í íslenskar krónur. Ekki séu þó allir hrifnir af þeirri leið, enda hafi gengisvísitalan í sumum tilfellum hækkað um 100 prósent. Eina lausnin í huga margra sé að krónan styrkist þannig að höfuðstóllinn lækki. Hann segist þó telja koma vel til greina að fólk geti valið að breyta lánum úr erlendri mynt í krónur.

Runólfur segir mikilvægt að hófs sé gætt þegar samningar eru gerðir upp, en nokkuð hafi vantað þar upp á. Fyrirtækin hafi krafist óeðlilega mikils lögfræðikostnaðar, viðgerðarkostnaður hafi verið óvenjulega hár og matsverð á innkölluðum bílum allt of lágt. Þetta hafi lagast í sumar, en þó séu enn dæmi um þetta. Nú sé lag að breyta þessu, sérstaklega þegar fyrirtækin eru flest komin undir hatt ríkisins.

Þá gagnrýnir Runólfur einnig útlánastefnu fyrirtækjanna, en hvatinn þar hafi fyrst og fremst verið að selja fleiri bíla. Oft hafi vantað upp á upplýsingagjöf.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×