Fótbolti

Verður austurrísk dramatík hjá landsliði Íslands annað sumarið í röð?

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sigurmarkm Arnórs Ingva Traustasonar.
Sigurmarkm Arnórs Ingva Traustasonar. Vísir/Getty
Ísland á annað sumarið í röð lið í úrslitakeppni Evrópukeppninnar. Í fyrra voru það strákarnir okkar sem unnu hug og hjörtu heimsins á EM í Frakklandi og næsta sumar fá stelpurnar tækifæri til að sýna úr hverju þær eru gerðar á EM kvenna í Hollandi.

Ísland verður í C-riðli á EM kvenna í Hollandi og í riðli með Frakklandi, Sviss og Austurríki. Stelpurnar byrja á móti Frakklandi en enda á móti Austurríki.

Það ætti að vekja upp góðar minningar hjá íslenskum knattspyrnuáhugafólki því lokaleikur strákanna okkar á EM í Frakklandi var einmitt á móti Austurríki.

Enginn Íslendingur gleymir því örugglega ekki í bráð þegar Ísland náði skyndisókn í uppbótartíma í Austurríkisleiknum í París og varamaðurinn Arnór Ingvi Traustason náði að tryggja Íslandi 2-1 sigur og leik á móti Englandi í sextán liða úrslitunum.

Dramatíkin og Víkingaklappið hjá leikmönnum og stuðningsmönnum í leikslok sáu til þess að íslenska landsliðið átti sviðsljósið í fótboltaheiminum. Frækin frammistaða á móti Englendingum sá svo til þess að stór hluti heimsins þekkti íslenska fótboltaævintýrið.

Kvennalið Íslands og Austurríkis hafa aldrei mæst á knattspyrnuvellinum en Austurríki er í 25. sæti FIFA-listans og hefur gengi liðsins farið vaxandi undanfarin ár. Þetta er í fyrsta skipti sem Austurríki leikur á  stórmóti í kvennaknattspyrnu en minnstu munaði að liðið næði að tryggja sig á HM í Kanada og á EM í Svíþjóð.

Ísland og Sviss hafa mæst sjö sinnum og þetta verður tíundi leikur kvennalandsliða Íslands og Frakklands. Frakkland er í 3. sæti á FIFA-listanum en Sviss er sem stendur í 16. sæti FIFA-listans.

Ísland hefur aðeins unnið Frakka einu sinni eða þegar Margrét Lára Viðarsdóttir skoraði eina mark leiksins á Laugardalsvelli í undankeppni EM 2009. Síðasti sigur Íslands á Sviss var árið 1985. Liðin mættust í undankeppni HM 2015 en þá vann Sviss báðar viðureignir liðanna, 0-2 á Laugardalsvelli, og 3-0 í Sviss.


Tengdar fréttir

Arnór: Leyfum þjóðinni að dreyma aðeins lengur

Arnór Ingvi Traustason innsiglaði sigur íslenska liðsins á Austurríki í gær með marki í uppbótartíma. Eftir orrahríð að marki íslenska liðsins afgreiddu okkar menn þetta með skyndisókn sem Arnór batt endahnútinn á.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×