Enski boltinn

Verðum að komast í úrslitaleik til að bjarga tímabilinu

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Courtois er ekki búinn að gefa upp alla von um að ná 4. sætinu.
Courtois er ekki búinn að gefa upp alla von um að ná 4. sætinu. vísir/getty
Thibaut Courtois, markvörður Englandsmeistara Chelsea, segir að liðið verði að komast í annað hvort úrslitaleik ensku bikarkeppninnar eða Meistaradeildar Evrópu til að bjarga tímabilinu.

Chelsea hefur gengið afspyrnu illa í ensku úrvalsdeildinni á tímabilinu en liðið á samt sem áður enn möguleika á að vinna tvo titla.

Chelsea mætir Manchester City í 16-liða úrslitum bikarkeppninnar og í 16-liða úrslitum Meistaradeildarinnar er andstæðingurinn Paris Saint-Germain.

„Við erum að fara að spila á móti tveimur frábærum liðum og verðum að reyna að vinna þessa leiki,“ sagði Courtois en Chelsea mætir PSG 16. febrúar í fyrri leik liðanna og fimm dögum seinna tekur liðið á móti Man City.

„Eina leiðin til að bjarga tímabilinu er að komast í úrslit í annarri hvorri eða báðum keppnunum.“

Þrátt fyrir að Chelsea sé í 13. sæti úrvalsdeildarinnar er Courtois ekki búinn að gefa upp alla von um að liðið nái Meistaradeildarsæti.

„Það segir sig sjálft að með hverjum leiknum sem við vinnum ekki minnka möguleikar okkar á að enda í efstu fjórum sætunum,“ sagði markvörðurinn.

„Eftir 5-6 leiki munum við sjá hvort þetta er gerlegt eða ekki.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×