Viðskipti innlent

Verðbólgan komin í 6,5%

Ársverðbólgan mælist nú 6,5% og hefur hækkað verulega frá því í desember þegar hún mældist 5,3%. Þessi hækkun er umfram spár sérfræðinga sem gerðu yfirleitt ráð fyrir að hún yrði 6,3%. Aukin verðbólga er einkum keyrð áfram af hækkunum á opinberum gjöldum.

Fjallað er um málið á vefsíðu Hagstofunnar. Þar segir að vísitala neysluverðs miðuð við verðlag í janúar sé 387,1 stig og hækkaði um 0,28% frá fyrra mánuði. Vísitala neysluverðs án húsnæðis er 365,9 stig og hækkaði um 0,05% frá desember.

Vetrarútsölur eru í fullum gangi og lækkaði verð á fötum og skóm um 10,3% (vísitöluáhrif -0,61%) og á húsgögnum, heimilisbúnaði o.fl. um 2,2% (-0,14%). Flugfargjöld til útlanda lækkuðu um 13,7% (-0,15%).

Verð á opinberri þjónustu hækkaði um 5,8% (0,45%). Þar af hækkuðu gjöld fyrir sorphirðu, holræsi og vatn um 12,6% (0,19%) og gjaldskrár orkuveitna fyrir rafmagn og hita hækkuðu um 4,4% (0,14%). Verð á bensíni og díselolíu hækkaði um 5,2% (0,30%) og verð dagvöru hækkaði um 0,8% (0,13%). Þá hækkaði verð á áfengi og tóbaki um 2,8% (0,10%).

Vísitöluáhrif af hækkun opinberra gjalda á áfengi, tóbak og bílaeldsneyti voru 0,16%.

Síðastliðna tólf mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 6,5% og vísitalan án húsnæðis um 5,7%. Undanfarna þrjá mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 0,7% sem jafngildir 2,6% verðbólgu á ári (1,0% verðbólgu fyrir vísitöluna án húsnæðis).





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×