Lífið

Verða eins og krækiber í helvíti

Stefán Þór Hjartarson skrifar
Strákarnir í One week wonder eru á leiðinni á SXSW þrátt fyrir að hafa gleymt að svara tölvupósti til að staðfesta komu sína á hátíðina.
Strákarnir í One week wonder eru á leiðinni á SXSW þrátt fyrir að hafa gleymt að svara tölvupósti til að staðfesta komu sína á hátíðina. Vísir/Ernir
Hljómsveitin One Week Wonder heldur út til Texas í mars til að spila á tónlistarhátíðinni South by Southwest. Um er að ræða eina stærstu hátíð sinnar tegundar í heiminum þar sem yfir tvö þúsund hljómsveitir alls staðar að koma fram.

„Það kemur þannig til að maður bara einfaldlega sækir um á netinu. Við reyndar hunsuðum tölvupóstinn sem við fengum sendan til baka í þrjá eða fjóra mánuði. Við fengum held ég svar í nóvember. Söngvarinn hringdi í mig fyrir tveimur dögum alveg „heyrðu við fengum svar!“ Við vorum búnir að fá alls konar ítrekanir og vorum alltof seinir að skila öllu inn en þau sýndu okkur alveg skilning – fólk í tónlistarbransanum er nú yfirleitt ekki með á nótunum,“ segir Árni Guðjónsson, hljómborðsleikari sveitarinnar One Week Wond­er, sem nú býr sig undir að ferðast alla leið til borgarinnar Austin í Texas til að koma fram á South by Southwest-hátíðinni frægu sem verður haldin í mars.

Á hátíðinni koma fram hljómsveitir víðsvegar að úr heiminum en hún er ein sú stærsta í heimi. Auk þess að vera tónlistarhátíð er þarna líka kvikmyndahátíð og sömuleiðis uppistandshátíð og þar að auki eru ýmsar ráðstefnur á dagskrá. Austin er gjörsamlega pökkuð af bransafólki af öllu tagi og aðdáendum þessa dagana.

„Þessi hátíð er algjör sturlun. Það eru ég veit ekki hvað margar hljómsveitir að spila þarna, örugglega yfir tvö þúsund bönd. Sigtryggur Baldursson sagði að það væri eins og að vera krækiber í helvíti að spila þarna. Ég hef farið einu sinni áður og þetta er eins og Airwaves á trölla­sterum – fólk spilar á umferðar­eyjum, það er bara spilað alls staðar.

Það er eiginlega allur skemmtanaiðnaðurinn í Bandaríkjunum þarna. Þetta er náttúrulega líka kvikmyndahátíð og uppistands­hátíð. Það er eiginlega allt þarna. Þetta er flennistór hátíð.“

Verður ekkert erfitt að redda sér gistingu þarna?

„Við vorum að skoða þetta og kíktum á AirBnB og Booking og fleira og það er allt sjöfalt dýrara á meðan hátíðin stendur yfir. Þetta er rán, rándýrt. En okkur tókst að finna eina gamla konu sem var greinilega ekki með á hreinu hvað var í gangi þarna og var með venjulegt verð. Aðrir eru með dollaramerkið tattóverað í augun.“

Hvað eru þið annars að bardúsa þessa dagana, er allt að gerast hjá ykkur?

„Við erum að fara að henda í annað myndband og semja meiri músík og taka upp. Við erum svo að fara norður á Akureyri þar sem við ætlum að spila með Davíð Berndsen, það er sem sagt fjórða febrúar. Annars erum við mest að undirbúa þessa ferð, það er í mörgu að snúast í kringum það. Það margt að gerast,“ segir Árni að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×