Innlent

Velta fyrir sér skriðdrekavörnum eftir enn eitt innbrotið

Gissur Sigurðsson skrifar
Aðkoman var hrikaleg í morgun.
Aðkoman var hrikaleg í morgun. Mynd/Örn Bender
Bíræfnir þjófar óku stolnum bíl í gegnum stórar rúður í tölvuverslun í Holtasmára í Kópavogi undir morgun, létu greipar sópa og hurfu á braut. Þetta er í þriðja sinn á nokkrum árum sem brotist er inn í verslunina á samskonar hátt.

Daníel Helgason rekstrarstjóri Ódýrsins, sem áður hét Tölvuvirkni, var kallaður á vettvang í nótt.

„Aðkoman var frekar slæm. Það var ljóst að það hafði bíl verið bakkað inn um rúðuna hjá okkur, beint inn í verslun,“ segir Daníel. Glerbrot hafi verið um allt en fjórar rúður brotnuðu. Þá varð einnig vatnstjón því ofn fór í sundur.

Lögregla mætti á vettvang í morgun en um er að ræða þriðja skipti sem samskonar innbrot er framið í búðinni sem áður hét Tölvuvirkni.Mynd/Örn Bender
Daníel segir erfitt að festa tölu á hve mikið tjónið er, einhverjum fartölvum hafi verið stolið en tjónið vegna skemmdanna á húsnæðinu sé meira.

„Já, það er margfalt meira.“

Þrisvar hefur verið brotist inn í þessa sömu verslun á þennan sama hátt. Ljóst er að frekari varnir virðist þurfa fyrir utan húsnæðið.

„Það væri óskandi en við erum bara leigjuendur hérna. Við erum í viðræðum við húseigandann um að hann setji upp skriðdrekavarnir hjá okkur.“

Eigandi Tölvuvirknis árið 2011 sagði eftir innbrot í verslunina að laga þyrfti varnir í kringum búðina og gera það að virki. Þá hafði tuttugu sinnum verið gerð tilraun til innbrots í búðinni að sögn Björgvins Þórs Hólm en fjallað var um málið í kvöldfréttum Stöðvar 2.

Þjófarnir voru á gráum Cherookee jeppa, með númerið EUU-94 og leitar lögregla hans, en honum var stolið af bílaverkstæði í Kópavogi í nótt.

Lögregla er einnig að skoða upptökur úr eftirlitsmyndavélum, en engin liggur enn undir grun. ​


Tengdar fréttir

Ótrúlegt myndband af þjófum að ræna tölvuverslun

Það tók þrjá þjófa einungis tuttugu sekúndur að stela átta tölvuskjám úr verslun í Kópavogi í nótt. Eigandinn segir þetta tuttugustu ránstilraunina á tveimur árum og ránsfengurinn sé líklegast kominn í hendur kaupenda nú þegar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×