Innlent

Vekja athygli á hvað eigi að gera við alvarlegum aukaverkunum eða of stórum skammti fentanýls

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Fetanýl er margfalt sterkara en bæði heróín og morfín.
Fetanýl er margfalt sterkara en bæði heróín og morfín.
Lyfjastofnun hefur gefið út leiðbeiningar um hvað eigi að gera ef vart verður við einkenni alvarlegra aukaverkana eða ofskömmtunar verkjalyfsins fentanýls en mikið hefur verið rætt um lyfið vegna andláts ungs manns á Menningarnótt þar sem talið er að hann hafi látist af völdum fentanýls.

Fentanýl er lyfseðilsskylt verkjalyf, hundrað sinnum sterkara en morfín og fimmtíu sinnum sterkara en heróín ef það er mælt milligramm fyrir milligramm. Auk mannsins sem lést á menningarnótt hafa tveir látist á árinu vegna fentanýls.

Fentanýl er notað í formi lyfjaplástra en önnur lyfjaform eru einnig á markaði, að því er fram kemur á vef Lyfjastofnunar. Lyfið er notað til að stilla langvinna og mikla verki og er einkum gefið krabbameinssjúklingum.

Verði maður var við einkenni alvarlegra aukavekrana eða ofskömmtunar af notkun fentanýls þarf að hafa samband við lækni strax eða fara á sjúkrahús. Ef um notkun á plástri er að ræða þarf jafnframt að taka hann strax af húðinni.

Einkennin geta verið óeðlileg syfjan og/eða skert öndunargeta. Á meðan beðið er eftir lækni eða á leiðinni á sjúkrahús þarf að halda einstaklingnum vakandi með því að tala við hann eða koma hreyfingu á hans eins og hægt er, til dæmis með því að hrista einstaklinginn.

Önnur einkenni eru skyndileg bólga í andliti eða hálsi, roði eða blöðrur á húð, flog og minnkuð meðvitund eða meðvitundarleysi.

Nánari upplýsingar má finna á vef Lyfjastofnunar.


Tengdar fréttir

Fentanýl ekkert til að fíflast með

Hættan af fentanýli er vanmetin í fíkniefnaheiminum, en lyfið er stórhættulegt og ekket til að fíflast með. Þetta segir Íslendingur sem sjálfur var háður heróíni í Bandaríkjunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×