Erlent

Varpa ljósi á tengsl ástralskra stjórnmálamanna við ítölsk glæpasamtök

Birgir Olgeirsson skrifar
Sidney, Ástralíu.
Sidney, Ástralíu. Vísir/Getty
Ný fréttaskýring ástralska fréttaskýringaþáttarins Four Corners er sögð leiða í ljós tengsl á milli ástralskra stjórnmálamanna og ítölsku Ndrangheta-glæpasamtakanna.

Þátturinn verður sýndur að kvöldi mánudags í Ástralíu en í honum kemur fram að stjórnmálamenn á sveitarstjórnarstigi og landsvísu hafi mögulega gerst sekir um spillingu vegna smuga í regluverki stjórnmálaflokka sem varða fjárframlög.

Ndrangheta-glæpasamtökin, kennd við Calabria-svæðið á Ítalíu, eru sögð ein þau hættulegustu í heimi en þau stunda eiturlyfjasölu, fjárkúgun og peningaþvætti. Starfsemi nær út um víðan heim og segir ríkisfjölmiðillinn í Ástralíu, ABC, þau beita hótunum og ofbeldi þar í landi. Samtökin höndla ekki aðeins með eiturlyf í Ástralíu heldur einnig ávexti og grænmeti, svo dæmi séu tekin.

Í auglýsingu fyrir þáttinn er sagt frá manni með tengsl við Ndrangheta-samtökin sem hitti þáverandi forsætisráðherra Ástralíu, John Howard, og aðra háttsetta stjórnmálamenn á fjáröflunarviðburði fyrir frjálslynda flokkinn snemma á síðasta áratug. Í fréttaskýringunni var tekið fram að ekkert gæfi til kynna að Howard hefði vitað af tengslum mannsins við glæpaheiminn.

Þá var greint frá því í þættinum að bæði meðlimir verkamannaflokksins og frjálslynda flokksins hefðu verið beittir þrýstingi af styrktaraðilum um málefni sem tengdust löglegri og ólöglegri starfsemi þeirra.

Vitnað var í trúnaðarskýrslur lögreglunnar í Ástralíu frá árinu 2013 þar sem greint er frá því að Ndrangheta hefði notað vel þekkta styrktaraðila stjórnmálaflokka til að fegra starfsemi sína.

Hélt lögreglan því fram að styrktaraðilar flokkanna hefðu verið notaðir til að afla háttsettum manni innan samtakanna landvistarleyfi í Ástralíu sem síðar var dæmdur fyrir eiturlyfjasmygl og morðtilraun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×