Fótbolti

Varnarmaðurinn fór í markið og varði tvö í vító - Arnar fór á kostum í lýsingunni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Cosmin Moti, varnarmaður og jú líka markvörður búlgarska liðsins Ludogorets, var hetjan í kvöld þegar félagið tryggði sér sæti í Meistaradeildinni í fyrsta sinn í sögu félagsins.

Ludogorets vann þá 6-5 sigur á rúmenska liðinu Steaua Búkarest í vítakeppni eftir að staðan hafði verið 1-1 samanlegt eftir framlengingu.

Cosmin Moti er 29 ára Rúmeni og fór því illa með landa sína í kvöld. Moti þurfti að fara í markið í leiknum eftir að markvörður liðsins Vladislav Stoyanov fékk rauða spjaldið í lok venjulegs leiktíma og Ludogorets var þá búið með sínar skiptingar.

Moti varði ekki aðeins tvö víti í vítakeppninni því hann skoraði líka úr fyrstu spyrnu Ludogorets. Hann varði síðan frá þeim Paul Pirvulescu og Cornel Rapa og tryggði sínum félagi sæti í Meistaradeildinni.

Arnar Björnsson fór á kostum á Stöð 2 Sport í kvöld þegar hann lýsti þessum æsispennandi og dramatíska lokakafla í leiknum og það má sjá svipmyndir frá leiknum með skemmtilegri lýsingu Arnars í myndbandinu hér fyrir ofan.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×