Innlent

Varað við hvassviðri eða stormi í nótt

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
vísir/anton brink
Vegagerðin varar við austan hvassviðri eða stormi við suðurströndina í nótt en vindhviður geta náð allt að 35-40 metrum á sekúndu. Þá má búast við mikilli úrkomu suðaustanlands. 

Veðurstofa Íslands spáir vaxandi austanátt á morgun, 18-25 metra á sekúndu og rigningu eða slyddu sunnan til, annars hægari en þurrt að kalla. Austan 23-28 metrar á sekúndu um tíma syðst í nótt og fyrramálið. Austan og norðaustan 18-23 og víða talsverð rigning eða slydda á morgun, en snjókoma til fjalla norðanlands. Búast má við mikilli úrkomu suðaustan- og austanlands. Dregur talsvert úr vindi og úrkomu sunnan til seinni partinn. Hlýnandi veður, hiti 0-8 stig á morgun, mildast syðst.

Á Suðurlandi eru vegir að mestu greiðfærir, þó eru hálkublettir á örfáum vegum. Óveður er undir Eyjafjöllum og á Reynisfjalli.

Vegir eru mikið auðir við Faxaflóa en hálka er á Holtavörðuheiði, í norðanverðri  Bröttubrekku og flughált á Laxárdalsheiði.

Hálka er á öllum helstu fjallvegum á Vestfjörðum og  hálkublettir í Ísafjarðardjúpi og víða í Barðastrandasýslu. Þæfingsfærð er á leiðinni norður í Árneshrepp á Ströndum.

Á Norðurlandi er víðast hvar hálka á vegum en snjóþekja á Dettifossvegi.

Það er hálka eða hálkublettir víða á Austurlandi en greiðfært frá Eskifirði með suðausturströndinni að Öræfasveit en þar er nú óveður.

Á laugardag

Norðaustanhvassviðri eða stormur NV-til, en annars mun hægari. Rigning S- og A-lands, en annars slydda eða snjókoma. Hiti 0 til 6 stig, hlýjast syðst.

Á sunnudag

Norðaustanhvassviðri eða -stormur, en hægari SA-til. Víða slydda eða snjókoma, en bjart með köflum SV-til. Dregur heldur úr vindi síðdegis. Kólnandi veður.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×