Körfubolti

Var í sínu besta formi en aldrei liðið verr

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Björg í leik með Grindavík á síðasta tímabili.
Björg í leik með Grindavík á síðasta tímabili. Vísir/Anton
Körboltakonan Björg Einarsdóttir, sem spilar nú með Snæfelli, segir frá baráttu sinni við íþróttaátröskun í áhugaverðu viðtali sem birtist á Nútímanum í gær.

„Íþróttir eru frábærar en þær geta verið erfiðar og tekið verulega á andlegu hliðina,“ segir Björg meðal annars í viðtalinu en hún veiktist árið 2014.

Fyrri hluta ársins var hún að jafna sig eftir sambandsslit en lið hennar þá, KR, gekk sömuleiðis illa inni á vellinum.

„Þetta lagðist á andlegu hliðina og leiddi til mikillar vanlíðanar,“ sagði Björg sem reyndi að lina sársaukann með því að sækja í mat.

Hún tók á mataræðinu þetta sumar og kom sér í gott líkamlegt form. Hún vann sér sömuleiðis sæti í landsliðinu og fékk mikið hrós fyrir bæði frammistöðu sína og útlit.

„Það sem fáir vita að mér hefur aldrei liðið jafn illa og haustið 2014. Það var samt sem áður þá sem ég var í mínu besta formi, átti mitt besta tímabil í körfunni og var endalaust hrósað af fólki sem sagði að ég liti vel út,“ sagði hún í viðtalinu.

Björg óttaðist að fara aftur í fyrra horf og borðaði af þeim sökum lítið yfir daginn og kastaði upp því sem hún borðaði. Það var svo í nóvember að hún brotnaði niður og leitaði sér hjálpar.

Björg var greind með íþróttaátröskun og búlimíu á alvarlegu stigi en viðtalið við hana má lesa á Nútímanum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×