Innlent

Vantar þrjú þúsund iðnaðarmenn á Íslandi

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Mikill skortur er á iðnaðarmönnum til ýmissa starfa en Gissur Pétursson, forstjóri Vinnumálastofnunar telur að það þurfi tvö til þrjú þúsund iðnaðarmenn í atvinnulífið strax til að geta sinnt þeim verkefnum sem eru í gangi.

Atorka, sem eru Samtök atvinnurekenda á Suðurlandi, Samtök sunnlenskra sveitarfélaga, Grunn- og framhaldsskólar á Suðurlandi og Háskólafélagi Suðurlands stóðu fyrir svokallaðri Starfamessu í Fjölbrautaskóla Suðurlands á Selfossi á fimmtudaginn. Um 30 fyrirtæki á Suðurlandi kynntu starfsemi sína fyrir framhaldsskólanemendum og nemendum efstu bekkja grunnskólanna þar sem áherslan var lögð á iðn og tæknigreinar en atvinnurekendur hafa miklar áhyggjur af því hvað fáir nemendur skrá sig í nám í þessum greinum.

„Það vantar fólk með með mismunandi menntun að baki í mjög margar iðn og tæknigreinar. Það vantar mikið af járniðnaðarmönnum, rafiðnaðarmönnum og fólk með margskonar þekkingu. Við erum auðvitað með ört vaxandi ferðaþjónustu hér. Hér vantar mikið af fólki í leiðsögn og inn í ferðaþjónustufyrirtækin og auðvitað í þeirri öflugu matvælavinnslu sem við erum með hér. Það vantar fólk í allar þessar greinar,“ segir Sigurður Þór Sigurðsson frá Atorku.

Gissur Pétursson, forstjóri Vinnumálastofnunar mætti á Starfamessuna. „Það er veruleg eftirspurn eftir fólki, jafnvel í þessar gömlu iðngreinar eins og múrverk, tréverk og fleira og fleira. Síðan er líka eftirspurn eftir nýju greinunum eins og grafískri hönnun. Margar þessara greina eru í vexti og vantar fólk“, segir Gissur.

En er verið að leggja of mikla áherslu á bóknámið í framhaldsskólunum?

„Það er auðvitað margtuggin saga að það er allt of mikil áhersla lögð á bóknámið og iðnmenntunin situr á hakanum. Það eru auðvitað margir sem hafa fundið sér störf í útlöndum, aðallega í Noregi, en þeir eru sem betur fer að snúa til baka en mannvirkjagreinarnar eru að taka við sér. Ég gæti alveg trúað að það vanti hér tvö til þrjú þúsund manns inn á vinnumarkaðinn til þess að vel eigi að vera,“ segir Gissur. Það vantar alls staðar fólk, t.d. hjá Vélsmiðju Suðurlands á Selfossi.

„Við myndum alveg geta bætt við okkur fjórum til fimm körlum,“ segir Margrét Ósk Jónasdóttir, framkvæmdastjóri Vélsmiðju Suðurlands á Selfossi, sem vonar jafnframt að starfamessan hafi skilað einhverju. „Það eru margir krakkar búnir að biðja um vinnu í sumar, þannig að það getur vel verið að það verði nokkrir nýir hjá okkur í sumar sem eru búnir að kynnast þessu hér,“ segir Margrét Ósk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×