Enski boltinn

Vandræðalegur skellur hjá Manchester United í deildabikarnum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Manchester United er úr leik í enska deildabikarnum í fótbolta eftir 4-0 skell á móti C-deildarliði MK Dons í kvöld. UNited-liðið hefur enn ekki unnið alvöru leik undir stjórn Louis van Gaal.

Manchester United er bara með eitt stig eftir tvær fyrstu umferðirnar í ensku úrvalsdeildinni og það bjuggust því flestir við að fyrsti sigur hollenska stjórans kæmi í kvöld.

Stuðningsmenn Manchester United fengu ekki sigur heldur þurftu að upplifa vandræðalegt og sannfærandi tap á móti liði sem er tveimur deildum neðar.

Will Grigg skoraði tvö fyrstu mörkin, á 25. og 63. mínútu, og varamaðurinn hans Benik Afobe bætti síðan við tveimur mörkum á lokakafla leiksins. Afobe var aðeins búinn að vera í nokkrar sekúndur þegar hann skoraði.

Jonny Evans gerði sig sekan um slæm mistök í fyrsta marki leiksins og heilt yfir var vörnin hjá United í tómu tjóni í þessum leik í kvöld.

Í stað þess að svara hinum megin á vellinum náði United-liðið aldrei upp takti í leiknum og varð á endanum að sætta sig við stóran skell.

Stuðningsmenn og leikmenn MK Dons fögnuðu vel frábærum sigri en matraðarbyrjun Louis van Gaal heldur áfram.

Jonny Evans var slakur í kvöld.Vísir/Getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×