Enski boltinn

Van Gaal: Við erum í stöðu sem er hvorki góð fyrir De Gea né félagið

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Fer hann eða ekki?
Fer hann eða ekki? Vísir/getty
Louis van Gaal, knattspyrnustjóri Manchester United, viðurkenndi eftir tapið gegn PSG í ICC-æfingamótinu í Bandaríkjunum í nótt að félagaskiptasaga Davids De Gea til Real Madrid fer í taugarnar á honum.

United er búið að vera í slag við spænska risann í allt sumar, en enska félagið vill fá varnarmanninn Sergio Ramos ætli það að sleppa markverðinum unga til Real Madrid.

De Gea spilaði fyrri hálfleikinn í 2-0 tapi Manchester United gegn Paris Saint-Germain í nótt og fékk á sig eitt frekar aulalegt mark áður en honum var skipt af velli.

Van Gaal hefur tvívegis hrósað spænska markverðinum fyrir framkomu sína í sumar þó nokkuð augljóst sé að hann langi til Real, en í nótt sagði hann, aðspurður um málið:

„Við erum í stöðu sem er hvorki góð fyrir David De Gea né félagið. Kannski vill hann fara.“

Hollendingurinn viðurkenndi um helgina að Sergio Romero, argentínski markvörðurinn sem hann fékk í síðustu viku, gæti endað sem aðalmarkvörður Manchester United þar sem De Gea virðist vera á förum.

„Ég get ekki sagt að De Gea hafi verið slakur í leiknum, en hann gerði mistök. Það geta allir gert mistök. Þegar markverðir gera þau taka allir eftir þeim og það er munurinn,“ sagði Louis van Gaal um frammistöðu De Gea í nótt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×