Enski boltinn

Van Gaal: Fyrirliðinn alltaf í byrjunarliðinu

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Kátur Wayne Rooney brosmildur á æfingu í gær.
Kátur Wayne Rooney brosmildur á æfingu í gær. vísir/Getty
 Byltingin hjá Manchester United heldur áfram á sunnudaginn þegar liðið mætir nýliðum Leicester. Létt er yfir mönnum á Old Trafford eftir 4-0 sigur á ömurlegu liði QPR um helgina og nú þarf að fylgja honum eftir.

Það er hausverkur fyrir Louis van Gaal að koma stórstjörnum sínum fyrir í liðinu eftir myndarleg sumarkaup, en einn maður veit þó að hann verður í byrjunarliðinu á móti Leicester.

„Aðeins fyrirliðinn nýtur meiri forréttinda en aðrir. Enginn annar leikmaður nýtur slíkra forréttinda. Fyrirliðinn minn spilar alltaf,“ sagði Louis van Gaal á blaðamannafundi í gær.

Robin van Persie hefur ekki enn skorað á leiktíðinni og nú er baráttan um framherjastöðurnar meiri eftir komu Radamel Falcao.

„Þeir trufla ekki hvor annan. Falcao er mjög góður framherji og ég hef alltaf sagt það að mér líkar Robin van Persie,“ sagði Louis van Gaal.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×