Fótbolti

Van Basten vill útrýma rangstöðureglunni og gulum spjöldum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Marco van Basten.
Marco van Basten. Vísir/Getty
Marco van Basten, fyrrum leikmaður hollenska landsliðsins, starfar í dag sem yfirmaður tæknimála hjá FIFA [e. technical director] og hefur róttæka framtíðarsýn á knattspyrnuna.

Meðal þeirra sem hann nefndi í nýlegu viðtali við Sport Bild í Þýskalandi var að útrýma rangstöðureglunni og gulum spjöldum.

„Við verðum að líta fram á veginn og leita leiða til að bæta leikinn,“ sagði Van Basten í samtali við blaðið. „Það eru ýmsar breytingar sem við þurfum að prófa á næstu árum.“

Van Basten vill leggja rangstöðuregluna til hliðar til að koma í veg fyrir að „fótbolti verði eins og handbolti þar sem níu leikmenn, og markvörður, pakka í vörn.“

Þá nefnir hann að tímabundin útilokun frá leiknum geti komið í stað hefðbundinnar áminningar. „Það myndi hræða leikmenn. Það er erfitt að spila tíu gegn ellefu, hvað þá með átta eða níu menn í liðinu.“

Van Basten er með fleiri hugmyndir. Hann vill hætta með framlengingar og nota þess í stað vítaspyrnukeppnir sem líkjast vítum í íshokkí - þar sem leikmenn byrja að rekja boltann, einn gegn markverðinum.

Þá hefur hann lagt til hugmyndir um að grípa til aðgerða sem taka á tímasóun leikmanna sem og að banna öðrum en fyriliðum liða að ræða við dómara.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×