Handbolti

Valsmenn ekki í miklum vandræðum með Seltirninga

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Anton Rúnarsson skoraði átta mörk.
Anton Rúnarsson skoraði átta mörk. vísir/ernir
Valur átti ekki í miklum vandræðum með að leggja Gróttu að velli þegar liðin mættust á Hlíðarenda í 14. umferð Olís-deildar karla í kvöld. Lokatölur 31-21, Val í vil.

Þetta var sjöundi sigur Vals í síðustu níu leikjum en liðið er komið upp í 3. sæti deildarinnar.

Fyrri hálfleikurinn var jafn framan af. Valsmenn fóru hins vegar með þriggja marka forskot, 12-9, inn til búningsherbergja eftir að hafa klárað fyrri hálfleikinn með 4-1 kafla.

Seinni hálfleikurinn var eign Valsmanna sem skoruðu hvert markið á fætur öðru. Á meðan voru Seltirningar í vandræðum á báðum endum vallarins.

Heimamenn bættu jafnt og þétt við forskotið og unnu á endanum tíu marka sigur, 31-21.

Anton Rúnarsson skoraði átta mörk fyrir Val og þeir Josip Juric Grgic og Ólafur Ægir Ólafsson fimm mörk hvor.

Gróttumaðurinn Finnur Ingi Stefánsson skoraði sex mörk gegn sínum gömlu félögum. Þráinn Orri Jónsson kom næstur með fjögur mörk en hann fékk að líta rauða spjaldið á 42. mínútu eftir að hafa fengið sína þriðju brottvísun.

Mörk Vals:

Anton Rúnarsson 8/4, Josip Juric Grgic 5, Ólafur Ægir Ólafsson 5, Atli Karl Bachmann 4, Vignir Stefánsson 3, Sturla Magnússon 2, Ýmir Örn Gíslason 2, Orri Freyr Gíslason 1, Alexander Örn Júlíusson 1.

Mörk Gróttu:

Finnur Ingi Stefánsson 6/1, Þráinn Orri Jónsson 4, Júlíus Þórir Stefánsson 3, Hannes Grimm 2, Elvar Friðriksson 1, Aron Dagur Pálsson 1, Vilhjálmur Geir Hauksson 1, Þórir Bjarni Traustason 1, Pétur Árni Hauksson 1.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×