Viðskipti innlent

Valitor undirbýr aukna starfsemi erlendis

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Viðar segir að kaupin séu í takt við stefnu Valitors varðandi uppbyggingu á mörkuðum á Norðurlöndum og í Bretlandi.
Viðar segir að kaupin séu í takt við stefnu Valitors varðandi uppbyggingu á mörkuðum á Norðurlöndum og í Bretlandi. fréttablaðið/stefán
Erlent dótturfélag Valitors, Iteron Holding, hefur keypt danska greiðslumiðlunarfyrirtækið AltaPay í Kaupmannahöfn. Kaupin eru í samræmi við stefnu Valitors varðandi uppbyggingu á lykilmörkuðum á Norðurlöndum og í Bretlandi, einkum á sviði netviðskipta.

Viðar Þorkelsson, forstjóri Valitors, segir að kaupin séu jafnframt rökrétt framhald af nánu samstarfi félaganna undanfarin ár en stór hluti af viðskiptavinum AltaPay er í færsluhirðingu hjá Valitor. Viðar segir ljóst að kaupin muni auka vöruframboð á framangreindum mörkuðum og gera kleift að sækja þar fram af auknum krafti. Viðar segir að Valitor hafi byrjað í erlendum viðskiptum árið 2003 og sett aukinn kraft í þau árið 2007. Þá hafi stefna félagsins líka verið endurskoðuð og menn farið að einblína meira á Bretland og Norðurlöndin. Hann segir að frá þeim tíma hafi Valitor bæði verið í hefðbundinni þjónustu við kaupmenn og svo netviðskiptum. „Netviðskipti hafa verið að vaxa mikið í heiminum, um 15-20 prósent vöxtur og í dag eru um 20 prósent af öllum viðskiptum í Bretlandi netviðskipti,“ segir Viðar.

Með kaupunum á Altapay geti Valitor aukið vöruframboð sitt. „Við erum að bæta við vöruframboði sem við höfum ekki í dag en þeir eru með. En það passar mjög vel saman og þá sér í lagi í netviðskiptum,“ segir hann.

Þessi viðskipti Valitors marka kaflaskil í þrjátíu ára sögu fyrirtækisins því þetta er í fyrsta sinn sem fyrirtækið kaupir annað fyrirtæki. „Já, alla vega erlendis,“ segir Viðar í samtali við Fréttablaðið. Hingað til hafi verið einblínt á innri vöxt fyrirtækisins.

AltaPay er með skrifstofur í Kaupmannahöfn og í London og alls starfa 19 manns hjá félaginu. Mikill vöxtur er hjá AltaPay og gert er ráð fyrir nokkurri fjölgun starfsmanna félagsins á árinu. Allir núverandi stjórnendur og starfsmenn félagsins verða áfram við störf. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×