Erlent

Valentínusardagurinn bannaður í ýmsum héruðum Pakistan

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Mótmælagöngur hafa farið fram gegn deginum. Fáum sögum fer af fjölda mótmælenda.
Mótmælagöngur hafa farið fram gegn deginum. Fáum sögum fer af fjölda mótmælenda. vísir/getty
Forseti Pakistan, Mamnoon Hussain, hefur fordæmt Valentínusardaginn og telur að dagurinn eigi enga tengingu við pakistanska menningu. Hann hefur mælst til þess að fólk sniðgangi daginn. Ummælin lét Hussain falla í kjölfar þess að héraðsstjórn í norðvesturhluta landsins ákvað að banna hátíðarhöld dagsins. Fjallað er um málið af BBC.

Leiðtogar strangtrúarðra í landinu hafa einnig mælst til þess að hin „úrkynjaða“ hátíð verði sniðgengin. Valentínusardagurinn er vinsæll í fjölmörgum borgum Pakistan en landið er það sjötta fjölmennasta í heimi með tæplega 200 milljón íbúa.

Lögreglumenn í Kohat, í Khyber Pakhtunkhwa héraði, hafa fengið skipanir um að koma í veg fyrir að verslanir selji varning tengdan deginum á borð við kort, blöðrur eða sælgæti. Í Peshawar hafa hátíðarhöld einnig verið bönnuð enda dagurinn talinn „tilgangslaus“.

„Valentínusardagurinn hefur engan lagalegan grundvöll í Pakistan. Að auki er dagurinn einnig andstæður trú okkar. Því höfum við ákveðið að banna hann,“ segir héraðsstjóri Kohat í samtali við BBC. Hann bætti því við að það að gefa blóm eða senda kort væri ekki slæmt í sjálfu sér. Það væri það hins vegar í tengslum við þennan dag.

Ólíklegt þykir að banninu verði framfylgt af hörku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×