Innlent

Vaktavinnufólk er dapurt og sefur og borðar verr en aðrir

Ingvar Haraldsson skrifar
Starfsfólk í vaktavinnu upplifir oftar depurð, á erfiðara með svefn og borðar verr en aðrir.
Starfsfólk í vaktavinnu upplifir oftar depurð, á erfiðara með svefn og borðar verr en aðrir. Fréttablaðið/vilhelm
Íslendingar sem vinna vaktavinnu eru við verri heilsu en þeir sem vinna dagvinnu.

„Vaktavinnufólk sefur skemur en dagvinnufólk, á erfiðara með að sofna, vaknar oftar á nóttunni og er oftar greint með síþreytu,“ segir Nanna Ingibjörg Viðarsdóttir, sérfræðingur hjá Embætti landlæknis, um niðurstöður lokaritgerðar sinnar sem fjallar um áhrif vaktavinnu á heilsu og líðan fólks. Niðurstöðurnar eru byggðar á svörum þrjú þúsund Íslendinga í könnuninni Heilsa og líðan Íslendinga sem Embætti landlæknis gerð árið 2012.

Mataræði þeirra sem vinna á vöktum er verra en annarra. „Vaktavinnufólk borðar oftar skyndibita og drekkur oftar gos, en borðar sjaldnar grænmeti samanborið við dagvinnufólk,“ skrifar Nanna í ritgerðinni.

Nanna Ingibjörg Viðarsdóttir.
Andleg heilsa vaktavinnufólks er einnig lakari en annarra. „Það upplifir oftar depurð og síður að eitthvað merkilegt gerist á hverjum degi,“ segir í ritgerðinni. Þar að auki er samband við maka verra en hjá fólki sem vinnur dagvinnu. Þrátt fyrir það tekur vaktavinnufólk sér ekki fleiri veikindadaga en aðrir.

Athygli vekur að mun lægra hlutfall Íslendinga vinnur vaktavinnu en annarra þjóða. Um sjö prósent Íslendinga vinna vaktavinnu miðað við um tuttugu prósent annars staðar. Nanna segir ákveðinn hóp fólks einkum vilja vinna vaktavinnu. „Það virðist aðallega vera ungt fólk sem ekki er í samböndum og ekki á börn sem sækir í vaktavinnu.“

Nanna segir mikilvægt fyrir atvinnurekendur að velja fólk eftir því hvort það ráði við vaktavinnu og finna hvaða vaktavinnukerfi hentar því best, enda bendi rannsóknir til þess að um fimmtungur fólks geti ekki unnið vaktavinnu vegna áhrifa vinnunnar á heilsuna. Þar að auki sé mikilvægt að vinnuveitendur virði reglur um hvíldartíma.

„Ef þú ert þreyttur eykur það líkurnar á því að þú gerir mistök í vinnunni því einbeitingin minnkar sem getur valdið vinnuslysum eða slysum á leiðinni heim,“ segir Nanna.

Vaktavinnufólk getur gert ýmislegt sjálft til þess að lágmarka skaðleg áhrif vaktavinnu á heilsuna, að sögn Nönnu. Hægt sé að notast við dagsljósalampa, leggja sig fyrir vaktir, hreyfa sig meira og borða hollari mat.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×