Erlent

Vændiskona ákærð fyrir að drepa yfirmann hjá Google með heróíni

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Forrest Timothy Hayes og fylgdardaman Alix Catherine Tichleman.
Forrest Timothy Hayes og fylgdardaman Alix Catherine Tichleman.
Kona, sem lögreglan segir vera fylgdardömu, hefur verið handtekin vegna gruns um að hún hafi sprautað miklu magni af heróíni í yfirmann hjá tæknifyrirtækinu Google með þeim afleiðingum að hann lést skömmu síðar.

Maðurinn, Forrest Timothy Hayes, á að hafa átt í löngu viðskiptasambandi við hina 26 ára gömlu Alix Catherine Tichleman áður en að hann fannst látinn um borð í snekkju sinni í Santa Cruz þann 23. nóvember síðastliðinn.  Hayes kom víða við í starfi sínu fyrir tæknirisann en hann var meðal annars einn af aðalsprautunum á bak við stafrænu Google-gleraugun.

Rannsóknarlögreglumenn segja að öryggismyndavélar um borð í bátnum sýni svo ekki verði um villst að Tichleman hafi sprautað Hayes með heróini, skömmu áður en hún labbaði út í nóttina eins og ekkert hefði í skorist.

„Í stað þess að reyna að koma manninum til bjargar eða hringja á neyðarlínuna ákvað ungfrú Tichleman heldur að taka saman föggur sínar, þar með talið heróínið og nálar,“ segir í yfirlýsingu frá lögreglunni.

Á hún að hafa stigið margoft yfir lík mannsins meðan á tiltektinni stóð, til að mynda til að klára rauðvínsglasið sitt. Lögreglan segir að hún hafi því næst dregið gardínurnar fyrir svo að enginn sæi inn í bátinn og lík mannsins á gólfinu.

Tichleman mætti fyrir rétt í Santa Cruz í gær en hún hefur verið ákærð fyrir morð, að veita annarri manneskju heróín, fyrir að valda manninum líkamstjóni, eignarhald á fíkniefnum og vændissölu.

Konan hefur montað sig af því á heimasíðu sinni af hafa átt í viðskiptum við meira en 200 manns og að hún rukki oft mörg þúsund dali fyrir kynnin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×