Viðskipti innlent

Útgöngugjaldið næði til alls fjármagns innan hafta

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra.
Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra.
Útgöngugjaldið sem framkvæmdahópur um afnám fjármagnshafta hefur til skoðunar er sambærilegt því sem lagt var til í áætlun Seðlabankans um afnám gjaldeyrishafta frá 25. mars 2011, samkvæmt heimildum fréttastofu Stöðvar 2 og Vísis. 

Útgöngugjaldið er eiginlegur skattur sem eigendur fjármagns sem lokað er inni í höftum inna af hendi til að losa um fjármagnið. Útgöngugjaldið sem nú er til skoðunar myndi ná til alls fjármagns sem er á bak við gjaldeyrishöft og hefur verið rætt um 35 prósenta gjald í því samhengi.

Bókfært virði eigna slitabúa föllnu bankanna nemur 2.600 milljörðum króna en kröfuhafar í búin eru 94 prósent erlendir aðilar. Talið er að útgjöngugjaldið, stundum kallað útgönguskattur í opinberri umræðu, gæti skilað allt að 500 milljörðum króna í ríkissjóð verði það að veruleika. 

Eru tillögurnar sem nú eru uppi því mun víðtækari en hugmyndirnar í áætluninni frá mars 2011, þótt hugmyndin sé í grunninn sú sama.

Samkvæmt heimildum fréttastofu yrði útgöngugjaldið útfært með sérstökum lögum, sem yrði lagt fram í formi frumvarps til laga um útgöngugjald.

Ekki hefur fengist staðfest hvort það liggi fyrir drög að þessu frumvarpi í fjármála- og efnahagsráðuneytinu nú þegar. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×