Sport

Utan vallar: Foreldrar - Ekki gera eins og David Beckham

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Sjálfur David Beckham var rekinn af fótboltaleik sonar síns fyrir að röfla í dómaranum.
Sjálfur David Beckham var rekinn af fótboltaleik sonar síns fyrir að röfla í dómaranum. Vísir/Getty
Nú fara fram margir úrslitaleikir í vetraríþróttunum, eins og í handbolta og körfubolta, og knattspyrnutímabilið er að hefjast. Af því tilefni er brýnt að minna foreldra á hlutverk sitt þegar kemur að íþróttaiðkun barna þeirra.

Sjálfur hef ég þjálfað börn í tólf ár og séð ýmislegt gerast í íþróttahúsum landsins. Ég man líka sjálfur hvernig hlutirnir voru þegar ég var að keppa.

Við þurfum að gera okkur grein fyrir að markmiðið með íþróttaiðkun barna er ekki að vinna sem flesta leiki. Hún snýst ekki um medalíur og bikara - heldur bros og minningar.

Foreldrar skipta ákaflega miklu máli þegar kemur að íþróttaiðkun barna. Sjálfur hef ég upplifað það sterkt í gegnum þjálfunina. Þegar lið eru með sterkan foreldrahóp á bak við sig verður starfið betra og umgjörðin flottari. Slíkt skilar sér yfirleitt í ánægðari börnum, sem er jú tilgangur yngriflokkaþjálfunar íþróttafélaganna.

Til að skerpa á hlutverkum fyrir vorið er gott að horfa til bandarískrar rannsóknar sem var gerð á foreldrum og íþróttaiðkun barna, en niðurstöður hennar voru birtar fyrir tveimur árum.

Bílferðin heim

Niðurstöður rannsóknarinnar bandarísku sýna að bílferðin heim af kappleikjum barna er eitthvað sem þarf að passa upp á sérstaklega. Í rannsókninni, sem spannaði þrjá áratugi, var íþróttafólk spurt hver versta minning þeirra úr íþróttaiðkun í æsku væri. Niðurstöðurnar voru skýrar. Bílferðin heim þótti hræðileg. Sérstaklega þegar foreldrar ætluðu að kryfja leikinn með barninu og fara yfir mistökin sem gerð voru.

Besta minning íþróttafólksins var þegar amma og afi mættu að horfa. Íþróttafólkinu fannst minni pressa að fá ömmu sína og afa á leikina – því fylgdi engin pressa því þau mættu bara til þess að njóta þess að sjá barnabörnin keppa.

Þeir sem framkvæmdu rannsóknina voru Bruce E. Brown og Rob Miller sem eru báðir þjálfarar sem hafa sérhæft sig í að leiðbeina foreldrum hvernig á að haga sér í sambandi við íþróttaiðkun barna.

„Af hverju flýttirðu þér ekki tilbaka?“

Brown og Miller segja ömmur og afa líklegri til þess að faðma börnin og segja „Vá hvað það var gaman að horfa á þig keppa.“ Og bæta engu við.

Þeir segja foreldra líklegri til þess að segja: „Þú verður að einbeita þér, þó þú sért á bekknum!“ „Þið hefðuð unnið ef dómarinn hefði dæmt rétt.“ „Þjálfarinn hefði átt að spila á besta liðinu þegar það skipti máli.“

Ekki vera martröð

Brown og Miller tiltaka fimm atriði sem einkenna „Martraðar íþróttaforeldra“ – eitthvað sem allir ættu að forðast að verða. Þeir tiltaka að jafnvel foreldrar sem sjálfir stunduðu íþróttir skilji ekki hvert hlutverk þeirra á að vera. Þeir benda til dæmis á að sjálfur David Beckham var rekinn af fótboltaleik sonar síns fyrir að röfla í dómaranum.

Foreldrar eiga ekki...

1. ...Að leggja of mikla áherslu á kappið. Alltof margir foreldrar einblína á úrslit leiksins eða einstök atriði á meðan leik stendur. Foreldrar sem mótmæla einstaka dómum eru slæmar fyrirmyndir. Mikilvægt er að kenna börnum sínum að „halda kúlinu“ og missa sig ekki á meðan leik stendur.

2. ...Að hafa önnur markmið en barnið sitt í íþróttum. Brown og Miller mæla með því að foreldrar og börn geri lista yfir markmið í íþróttaiðkun barnanna. Þeir segja börnin yfirleitt leggja áherslu á skemmtunina, samveru með vinum sínum og að bæta sig í sinni íþrótt. Þeir segja aftur á móti marga foreldra oft leggja áherslu á að barnið þeirra komist í stjörnuliðið, fái skólastyrk eða komist í atvinnumennsku.

3. ...Að gera lítið úr þjálfaranum. Brown og Miller segja mikilvægt að börn í íþróttum hafi eina rödd til að hlusta á. Að stýra börnunum sínum úr stúkunni gerir þeim bara illt. Að gera lítið úr þjálfaranum á leiðinni heim af kappleik skemmir líka fyrir barninu og hefur áhrif á traustið sem það sýnir þjálfaranum sínum

4. ...Að koma öðruvísi fram við barnið sitt eftir tapleik. „Margir íþróttamenn upplifa mismunandi viðbrögð foreldra sinna eftir því hvernig kappleikir enda. Sumir upplifa að virði þeirra í augum foreldra breytist ef leikur tapast,“ segir Brown.

5. ...Að lifa draum sinn í gegnum barnið. Alltof margir foreldrar reyna að lifa gamlan íþróttadraum í gegnum barnið sitt. Brown og Miller segja meira að segja suma foreldra eigna sér afrek barna sinna. Til dæmis ef barnið hittir vel í körfuboltaleik: „Já, við vorum búnir að vinna mikið í skotinu fyrir leikinn.“ Brown og Miller segja suma foreldra svekkja sig á tapleikjum lengur en börnin. Börnin séu jafnvel farin út að leika sér og séu löngu búin að gleyma tapleik – en foreldrið sitji jafnvel heima pirrað. Foreldrar sem haga sér svona þurfa að athuga sinn gang.

Vertu draumaforeldri

Brown og Miller fara líka yfir hvernig draumaforeldrið hagar sér á kappleikjum. Eitthvað sem allir eiga að geta tekið til sín.

Foreldrar eiga ...

1. ...Að hvetja alla í liðinu. Foreldrar eiga að reyna að mæta á sem flesta leiki og vera hvetjandi. Hvatningin á þó ekki að vera of leiðbeinandi, mikilvægt er að börn í íþróttum finni sjálf lausnir á því sem gerist inni á vellinum.

2. ...Að halda ró sinni og sýna stillingu. Ef foreldrar sýna stillingu þegar mikið liggur undir, eru börnin líkleg til þess að gera slikt hið sama. Það getur hjálpað börnum að takast á við erfiðar aðstæður innan vallar sem utan.

3. ...Að hafa hugfast hvað má ræða við þjálfarann og hvað ekki. Mikilvægt er að ræða ekki hluti eins og spilatíma, leikskipulag og aðra leikmenn en sitt eigið barn við þjálfarann. Foreldrar eiga frekar að einbeita sér að umgjörðinni þegar þeir ræða við þjálfarann, reyna að aðstoða eftir fremsta megni að skapa réttar aðstæður fyrir liðið. Einnig geta foreldrar rætt hegðun barns síns og skipst á ráðum við þjálfarann. En mikilvægt er að láta skipulag liðsins í hans hendur.

4. ...Að þekkja sitt hlutverk. Allir sem eru viðstaddir kappleik eru leikmenn, dómarar, þjálfarar eða áhorfendur. En hver og einn á bara að sinna einu hlutverki. Foreldrar, sem eru í áhorfendapöllunum, eiga því ekki að þjálfa liðið, dæma leikinn eða keppa í gegnum barnið sitt. Brown segir mikilvægt að foreldrar gleymi því ekki að þó þeir séu í stúkunni geti þeir ekki hagað sér eins og þeir vilja. Brown segir að sum börn skammist sín fyrir foreldra sína.

5. ...Að leggja áherslu á að hlusta á barnið og hvetja það áfram. Þegar barnið vill ræða um kappleiki eiga foreldrar að hlusta og reyna að svara sem flestum spurningum. Í þeim skilningi er jákvæðni mikilvæg. Brown segir töfraorðin vera: „Mér finnst ótrúlega gaman að horfa á þig keppa.“

Bros og minningar – ekki medalíur og bikarar.

Gott er að taka það fram að ráðin eru byggð á niðurstöðum rannsóknar sem unnin var í þrjá áratugi. Þetta á auðvitað við um bandarískt íþróttalíf, en flestir hljóta að hafa upplifað eitthvað í líkingu við það sem rannsakendur kalla „Martraðar íþróttaforeldrið“.

Þetta er auðvitað enginn algildur sannleikur. En munum samt að íþróttaiðkun barna er ekki metin útfrá medalíum og bikurum, heldur brosum og minningum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×