Enski boltinn

Úr skúrki í hetju á einni sekúndu og Liverpool sat eftir | Myndband

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Liverpool er úr leik í enska deildabikarnum eftir 1-0 tap í seinni undanúrslitaleiknum á móti Southampton á Anfield í gærkvöldi.

Southampton vann fyrri leikinn líka 1-0 en staðan var 0-0 fram í uppbótartíma í gær. Sigurmark Shane Long úr skyndisókn tryggði endanlega fyrsta úrslitaleik Southampton á Wembley í 38 ár.

Margt hefði örugglega farið öðruvísi ef Fraser Forster, markverði Southampton, hefði ekki tekist að bjarga marki á ótrúlegan hátt á 55. mínútu.

Liverpool-maðurinn Emre Can átti þá skot fyrir utan teig sem Fraser Forster hálfvarði en missti boltann klaufalega yfir sig og fátt virtist geta komið í veg fyrir að boltinn færi yfir línuna.

Fraser Forster var í engi óskastöðu, liggjandi á vellinum, og þá virtist Daniel Sturridge, sóknarmaður Liverpool, vera í miklu betri aðstöðu til þess að ná til boltans.

Forster sýndi ótrúlegt snarræði þegar hann stökk á eftir boltanum og tókst að moka honum af línunni og úr færi fyrir Sturridge sem kom aðvífandi.

Marklínutæknin sannaði síðan að Forster hafði á óskiljanlegan hátt tekist að bjarga marki.

Á rúmri sekúndu breyttist þessi 28 ára markvörður úr skúrki í hetju. Hann hélt síðan hreinu út leikinn og verður í markinu í úrslitaleiknum á Wembley. Liverpool er hinsvegar úr leik og janúarmaður ætlar að reynast Jürgen Klopp og lærisveinum hans erfiður.

Það var því ekkert skrýtið að Fraser Forster hafi eignað sér forsíðu ensku blaðanna í morgun og myndin af honum að skófla boltanum af línunni var á þeim flestum.

Hér fyrir neðan má sjá myndband af þessari mögnuðu markvörslu Fraser Forster en það er Hörður Magnússon sem lýsir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×