Innlent

Uppsagnir tuttugu geislafræðinga taka gildi á morgun, neyðaráætlun sett í gang

Kristjana Guðbrandsdóttir skrifar
Stöður þeirra tuttugu geislafræðinga sem sögðu upp störfum á Landspítalanum hafa verið auglýstar. Uppsagnir þeirra taka gildi á morgun. Örfáir hafa dregið uppsagnir sínar til baka eftir niðurstöðu Gerðardóms.



„Það er mikið áhyggjuefni. Eftir að hafa verið í verkfalli í langan tíma og síðan fengið lög á verkfallið og gerðardóm eru þeir greinilega ekki alveg sáttir. Við höfum miklar áhyggjur af þessu. Við höfum fundað með geislafræðingum tvisvar sinnum. Við höfum líka rætt við einstaklinga, flest alla sem hafa sagt upp, til að átta okkur á ástæðu uppsagnanna. Það eru auðvitað fyrst og fremst kjaramál sem þetta fjallar um en líka nokkur önnur atriði sem við höfum verið að vinna með, segir Óskar og segir starfshópa deildarstjóra, yfirlækna og mannauðsstjóra hafa unnið að ásættanlegri lausn.

„Til að reyna að gera hlutina eins vel og hægt er og til að starfsmönnum líði sem best, svo við getum fengið til baka geislafræðingana sem hafa sagt upp.“

Mjög skert starfsemi og neyðaráætlu

Starfsemi röntgendeildar verður mjög skert ef geislafræðingar ganga út á morgun. Þá verður sett af stað neyðaráætlun innan spítalans.  Ástandið mun bitna á þeim sem bíða eftir rannsóknum.

„Það er mjög skert starfsemi deildarinnar, ef að allir tuttugu ganga út á morgun og neyðaráætlun sem er sett í gang. Þetta mun auðvitað bitna á þeim sem bíða eftir rannsóknum.“

Geislafræðingar hafa kvartað undan miklu álagi í starfi. Óskar segir spítalann tilbúinn að koma til móts við þarfir þeirra.

„Við gerum allt sem við getum á spítalanum til að fá fólkið til baka, geislafræðingar hafa kvartað undan álagi og þær vinna mjög marga tíma. Við þurfum aðstoð þeirra við að leysa úr þessu þegar við erum laus úr þessari krísu sem við erum í núna.“

Vill skriflegt samkomulag

Katrín Sigurðardóttir formaður félags geislafræðinga vill skriflegt samkomulag við Landspítalann um vinnuaðstæður og kjör. Hún telur að það muni ekki taka geislafræðinga langan tíma að komast að þessu samkomulagi við stjórnendur Landspítalans.

„Ég held að það þyrfti ekki að taka langan tíma, það þarf bara að setjast niður og gera þetta.“ 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×