Innlent

Upplýsingar um ofbeldi gagnvart ófrískum konum víða í kerfinu

Linda Blöndal skrifar
Ástþóra Kristinsdóttir, ljósmóðir sem sinnir mæðraeftirliti segir brýna þörf á að afla upplýsinga um hve margar íslenskar konur þurfi að þola ofbeldi á meðgöngu hér á landi. Hún telur að tilfellin séu án efa vanskráð. 

Brýnt að bæta úr skráningum hérlendis

Í rannsókn Ástþóru kemur fram að um tuttugu prósent kvenna verði fyrir ofbeldi á meðgöngu af hálfu barnsföður síns en tölurnar miðast við erlendir rannsóknir. Ástþóra segir raunhæft að miða þessar tölur. „Þetta er auðvitað alltof há tala en engu að síður sýna fræðin það að í löndunum í kringum okkur er þetta þannig", sagði Ástþóra í fréttum Stöðvar tvö í kvöld. Hún segir mjög brýnt að bæta úr skráningum hérlendis til að fá yfirsýn um vandann. 

„Það skiptir auðvitað gríðarlegu máli að við vitum umfangið á þessu hér á landi og hafa okkar eigin tölur. Þetta er sennilega mjög vanskráð og við erum að skrá þetta mjög misjafnlega eftir því hvar konurnar koma inn. Það er ekki gott að leita að þessu í pappírum inni á stofnunum, hvort sem það er heilsugæslan, Landspítalinn eða geðdeild eða eitthvað annað", segir Ástþóra. 

Margs konar tegundir ofbeldis

Afleiðingar ofbeldisins geta til að mynda verið fyrirburafæðing, fósturskaði eða fósturlát og sýkingar í fæðingarvegi. Þær geta birst á ólíkan máta, til dæmis að konan einangrist á meðgöngunni, missi sjálfstæði sitt og verði þunglynd og kvíðin vegna andlegs ofbeldis.

Ástþóra nefnir nokkrar birtingamyndir: „Það getur verið andlegt, líkamleg, kynferðislegt eða fjárhagslegt ofbeldi. Það má svo heldur ekki gleyma því að við erum misjafnar og skilgreinum ofbeldi á misjafnan hátt. Það er einni finnst vera ofbeldi finnst annarri það ekki vera til staðar. En ef konur upplifa sjálfar að þær séu beittar ofbeldi þá er það skráð sem slíkt". 

Kallað á samhæfingu

Fjórtán tilkynningar bárust barnaverndarnefnd fyrstu þrjá mánuði ársins um að heilsa eða líf ófædds barns væri í hættu , eins og fréttablaðið hefur sagt frá en ef ljósmæður óttast um barnið í móðurkviði ber þeim skylda að láta barnaverndaryfirvöld vita. Eftir það eru þó vinnubrögð á milli heilsugæslunnar og barnaverndaryfirvalda ekkert sérstaklega samræmd. Komið hefur fram í umfjöllun Fréttablaðsins undanfarna daga að lögreglan á Höfuðborgarsvæðinu vilji meiri samvinnu milli aðila innan kerfisins sem komið að slíkum málum og unnið sé að úrbótum í þeim efnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×