Enski boltinn

United gæti gefið Rooney til Everton en hann langar heim

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Rooney á heimleið?
Rooney á heimleið? vísir/getty
Fastlega er búist við því að Wayne Rooney gangi í raðir uppeldisfélags síns Everton í sumar en það þykir nú lang líklegasti áfangastaður framherjans verði hann áfram í ensku úrvalsdeildinni.

Þetta kemur fram í frétt enska blaðsins Independent um verðandi félagaskipti Rooney en hann er sagður vilja komast heim. Everton gæti meira að segja dottið í lukkupottinn og fengið hann frítt.

West Ham var sagt fyrir helgi ætla að blanda sér í baráttuna um Rooney en heimildamenn Independent segja að enski landsliðsfyrirliðinn vilji aftur klæðast bláu treyjunni yfirgefi hann Old Trafford. Hann fór frá Everton 18 ára gamall.

United var tilbúið að láta Rooney fara til Kína í febrúar en hann vildi ekki yfirgefa enska boltann á þeim tímapunkti. Tilboð sem Everton er nú með í bígerð heillar hann miklu meira.

Samkvæmt heimildum Independent innan raða United er félagið mögulega tilbúið að láta hann fara frítt og því í raun gefa hann til Everton. Everton er svo reiðubúið að borga honum 150.000 pund í vikulaun sem er tvöfalt minna en hann þénar hjá United. Tilboðið er sagt heilla Rooney upp úr skónum.

Kína er víst ekki alveg út úr myndinni hjá Rooney en félagaskipti þangað fara alveg eftir því hvernig gengur hjá honum á enska markaðnum eftir tímabilið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×