Erlent

Unglingar létust í skyndiflóði

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Þyrla sést hér taka þátt í björgunaraðgerðunum nærri Arva í suðurhluta Ísraels.
Þyrla sést hér taka þátt í björgunaraðgerðunum nærri Arva í suðurhluta Ísraels. Vísir/Getty
Níu ísraelskir unglingar létust í skyndiflóði er þeir gengu sunnan við Dauðahafið á dögunum.

Í samtali við Guardian segir talsmaður lögreglu þar í landi að flóðið hafi komið þeim að óvörum. Miklar rigningar hafa verið í suðurhluta Ísraels að undanförnu og talið er að flóðið hafi verið regnvatn sem safnast hafði upp.

Hin látnu voru hluti af 25 manna hópi sem undirbjó sig fyrir inngöngu í ísraelska herinn. Fimmtán hefur verið bjargað og eins er enn saknað. Átta hinna látnu voru drengir en sú níunda var stúlka, að sögn lögreglu.

Forseti Ísraels sagði á Twitter-síðu sinni að ísraelska þjóðin gréti með aðstandendum hinna látnu. Hann sendi þeim samúðarkveðju sína og vonast til að bati hinna slösuðu verði hraður.

Dauðahafið, sem liggur um 426 metra undir sjávarmáli, er umkringt eyðimörk og þar rignir alla jafna lítið. Þegar það rignir getur vatnið þó runnið eftir skurðum og sprungum og náð miklum hraða. Talið er að það kunni að hafa orsakað fyrrnefnt skyndiflóð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×