Erlent

Umhverfisvænt að borða ekki kjöt

Randver Kári Randversson skrifar
Eftirspurn eftir kjöti fer vaxandi í heiminum.
Eftirspurn eftir kjöti fer vaxandi í heiminum. Vísir/Getty Images
Nýlegar rannsóknir benda til þess að  besta leiðin fyrir fólk til að draga úr kolefnisfótspori sínu sé að minnka neyslu á kjöti, eða jafnvel hætta henni alveg. Einkum á þetta við um nautakjöt, þar sem nautgriparækt veldur meiri losun gróðurhúsalofttegunda en ræktun á öðrum búfénaði.

Á vefnum thinkprogress.org er fjallað um rannsókn sem birtist í fræðiritinu Proceedings of the National Academy of Sciences  þar sem fram kemur að losun gróðurhúsalofttegunda frá búfénaði fer vaxandi og má rekja stærstan hluta aukningarinnar til aukinnar nautgriparæktunar en hún veldur um 70% allrar losunar  sem rekja má til búfénaðar.

Rannsóknin leiddi einnig í ljós að nautgriparækt krefst 28 sinnum meira landsvæðis og hefur í för með sér 11 sinnum meiri vatnsnotkun heldur en ræktun á öðrum búpeningi s.s. svínum eða kjúklingi, auk þess sem nautgriparækt veldur um fimm sinnum meiri losun gróðurhúsalofttegunda.

Einnig er vitnað í ritinu sem birtist í ritinu Climate Change  þar sem fram kemur að frá 1961 til 2010 jókst losun gróðurhúsalofttegunda frá nautgripum um 51%. Það skýrist að stórum hluta af aukinni eftirspurn eftir kjöti, sérstaklega í þróunarlöndum. Jafnvel þó svo þróunarríkjum gangi nú betur að minnka losunina frá hverjum nautgrip þá heldur losun gróðurhúsalofttegunda áfram að vaxa í flestum þróunarríkjum vegna aukinnar nautgriparæktunar.

Gert er ráð fyrir að eftirspurn eftir kjöti og öðrum landbúnaðarafurðum muni tvöfaldast fyrir árið 2050 en jarðarbúum mun þá hafa fjölgað um tvo milljarða. Því má búast við aukinni losun gróðurhúsalofttegunda samhliða því.  Um 15% losunar gróðurhúsalofttegunda á heimsvísu má rekja til landbúnaðar, og þar af stafar um helmingur af ræktun búpenings.

Í þessu sambandi segir prófessor við University of Leeds í samtali við blaðið Guardian að árangursríkasta ráðstöfun sem fólk geti gert til að draga úr kolefnisfótspori sínu sé ekki að losa sig við einkabílinn, heldur að borða minna rautt kjöt. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×