Körfubolti

Umfjöllun og viðtöl: KR - Haukar 77-69 | Tilþrifalítill sigur KR-inga

Smári Jökull Jónsson í DHL-höllinni skrifar
KR vann sigur gegn Haukum í 15.umferð Dominos-deildar karla í körfuknattleik en liðin áttust við í DHL-höllinni í kvöld.

Leikurinn var jafn í fyrri hálfleik þó KR væri ávallt skrefinu á undan. Haukum gekk illa að hitta lengst af í hálfleiknum og KR komst mest í 10 stiga forskot. Haukar héldu sér þó í námunda við Íslandsmeistarana og staðan í hálfleik var 43-38 fyrir KR.

Í þriðja leikhluta hrökk sóknarleikur KR svo heldur betur í baklás. Þeir skoruðu aðeins 10 stig í leikhlutanum og að honum loknum leiddu Haukar, 54-53.

Hið sama virtist ætla að vera upp á teningunum í fjórða leikhluta. KR gekk illa sóknarlega en Haukar náðu ekki að nýta sér það nógu vel og skotin þeirra voru ekki að detta niður.

Undir lokin kom reynsla og breidd KR liðsins sér vel og þeir sigu fram úr á meðan Haukar sátu eftir. Lokatölur urðu 77-69  og halda KR-ingar því toppsætinu. Haukar sitja enn í fallsæti og eru tveimur stigum á eftir Skallagrím sem situr í sætinu fyrir ofan.

Af hverju vann KR?

Sigur KR má að miklu leyti rekja til betri hittni utan þriggja stiga línunnar. Þeir settu niður 11 þrista en Haukar aðeins þrjá þrátt fyrir að hafa átt fleiri tilraunir. KR-ingar gátu leitað á bekkinn eftir góðum stigum og varamenn þeirra settu niður fleiri þriggja stiga skot en allt Haukaliðið.

Haukar hefðu þurft að nýta sér slæmu leikkafla KR betur en eins og Ívar Ásgrímsson þjálfari Hauka sagði eftir leik þá settu þeir einfaldlega ekki stóru skotin niður. Haukar hefðu þurft frekara framlag frá Sherrod Wright en hann skoraði ekki nema 15 stig og náði sér ekki á strik þrátt fyrir að hafa reynt mikið.

Bestu menn vallarins:

Darri Hilmarsson átti fínasta leik fyrir KR og var þeirra stigahæstur með 19 stig. Hann hitti úr þremur af fimm þriggja stiga skotum og tók af skarið þegar þurfti. Aðrir áttu góða spretti og Vilhjálmur Kári Jensson kom til dæmis inn af bekknum og setti tvær þriggja stiga körfur þær átta mínútur sem hann spilaði.

Pavel Ermolinskij var nálægt þrefaldri tvennu þrátt fyrir að vera ekki að hitta vel og Snorri Hrafnkelsson var frábær í fyrri hálfleik þar sem hann skoraði 15 af sínum 17 stigum.

Hjá Haukum átti Breki Gylfason fína spretti en lenti í villuvandræðum undir lokin. Finnur Atli Magnússon sýndi fína takta af og til og varnarlega voru Haukar oft á tíðum að spila vel.

Áhugaverð tölfræði:

Haukur Óskarsson hjá Haukum var ískaldur fyrir utan þriggja stiga línuna og klikkaði á öllum sínum 10 skotum. Jón Arnór Stefánsson var sömuleiðis kaldur í kvöld og setti aðeins tvö stig úr átta skotum.

KR hitti betur fyrir utan þriggja stiga línuna en innan hennar, nýtingin var 45% fyrir utan en 39% fyrir innan þó svo að Snorri Hrafnkelsson hafi hitt úr 8 af 10 skotum sínum inni í teig.

Hvað gekk illa?

Haukum gekk fyrst og fremst illa að hitta úr opnum skotum. Með betri hittni hefðu þeir verið nær sigrinum því KR var ekki að spila sinn besta leik i kvöld.

Sóknarleikur KR gekk illa í seinni hálfleik og þeir skoruðu ekki nema 14 stig á fyrstu 15 mínútum hálfleiksins. Þeir misstu boltann of oft og klikkuðu á einföldum hlutum sem maður sér þá ekki vanalega klikka á.

Grimm vörn Hauka skilaði mörgum villum og þeir lentu í villuvandræðum undir lokin þar sem þrír leikmenn voru komnir með fjórar villur.

KR-Haukar 77-69 (22-17, 21-21, 10-16, 24-15)

KR: Darri Hilmarsson 19/4 fráköst, Snorri Hrafnkelsson 17/4 fráköst, Brynjar Þór Björnsson 9, Pavel Ermolinskij 8/11 fráköst/13 stoðsendingar/5 stolnir, Þórir Guðmundur Þorbjarnarson 8/5 fráköst, Sigurður Á. Þorvaldsson 8/4 fráköst, Vilhjálmur Kári Jensson 6, Jón Arnór Stefánsson 2.

Haukar: Sherrod Nigel Wright 15/10 fráköst, Haukur Óskarsson 15, Finnur Atli Magnússon 14/12 fráköst/6 stoðsendingar, Breki Gylfason 13/7 fráköst, Hjálmar Stefánsson 7/6 fráköst, Jón Ólafur Magnússon 3, Emil Barja 2.

Finnur Freyr: Nýr leikmaður kynntur á laugardagFinnur Freyr Stefánsson þjálfari KR sagðist vera ánægður með sigurinn gegn Haukum í Dominos-deildinni í kvöld og þá sérstaklega í ljósi þeirra breytinga sem áttu sér stað þegar Cedrick Bowen var sendur heim.

„Mér fannst við alveg getað spilað töluvert betur en það voru góðir leikkaflar í öðrum leikhluta og svo núna í lokin sem færðu okkur þennan sigur. Miðað við að liðið var ekki að spila af fullum krafti þá er ég ánægður með að fá sigur,“ sagði Finnur Freyr við Vísi eftir leik.

KR var fimm stigum yfir í hálfleik en eftir leikhlé hrökk sóknarleikurinn í baklás og liðið skoraði aðeins 14 stig á fyrstu 15 mínútum síðari hálfleiks.

„Mér fannst bara vanta smá takt í menn. Við vorum að gera ágætis hluti og skapa ýmislegt en það vantaði upp á tímasetningar og smá meiri grimmd undir körfunni. Þegar það small þá fannst mér við vera að fá fínar körfur. Það vantaði drápseðlið í okkur.“

Eins og kom fram fyrr í dag þá sendu KR-ingar Cedrick Bowen heim en hann þótti ekki standa undir vandræðum.

„Við erum búnir að vera að skoða okkar mál. Cedrick er góður strákur og mjög fínn í ákveðnum hlutum í körfubolta en við töldum það að okkur vantaði strák sem er betri í fleiri þáttum leiksins. Leikmann sem getur styrkt okkur varnarlega og frákastalega og í þessum leikfræðilegu þáttum sem Cedrick hefur ekki reynsluna til að vera góður í.“

„Sá leikmaður kemur á laugardaginn og verður kynntur til leiks þá. Hann er búinn að spila í Evrópu í fjögur tímabil núna. Þetta er reynslumeiri strákur sem er nær eldri leikmönnunum í aldri og hefur verið í titilbaráttu þar sem hann hefur verið að spila. Hann kann það sem við höfum verið að gera. Hann er miðherji sem getur leyst báðar stóru stöðurnar,“ sagði Finnur Freyr að lokum.

Ívar: Ljóst að við verðum að fara að vinna leikiÍvar Ásgrímsson sagði margt jákvætt við leik sinna manna í Haukum í kvöld en þeir töpuðu 77-69 í Frostaskjólinu eftir að hafa verið yfir á tímabili í síðari hálfleiknum.

„Það vantaði að við settum stóru skotin niður. Það hefur vantað hjá okkur í vetur en heilt yfir var margt jákvætt hjá okkur. Við vorum búnir að tala um það að eftir síðasta leik, þegar við brotnuðum andlega, að við æltuðum að reyna að stjórna hraðanum og bæta vörnina. Ég held að það tvennt hafi staðist,“ sagði Ívar við Vísi að leik loknum í kvöld.

„Vörnin var oft mjög góð. Við gáfum þeim að vísu svolítið af opnum þristum en lokuðum miðjunni betur en við höfum verið að gera. Það var margt jákvætt í þessum leik.“

Vörn Hauka hélt KR í 14 stigum á fyrstu 15 mínútum síðari hálfleiks en náðu þó ekki að nýta sér það nógu vel og náðu aldrei meira en tveggja stiga forystu.

„Við vorum að hitta illa úr þristum. Við fengum galopin skot heilt yfir allan leikinn en vorum ekki að setja þau niður. Það var kannski munurinn að þeir voru að setja stóru skotin. Þeir voru að setja menn inn sem settu niður þrista,“ bætti Ívar við.

Haukar sitja í fallsætinu eins og staðan er en eiga mikilvæga leiki framundan gegn liðunum sem eru í sætunum fyrir ofan.

„Við eigum svaka prógramm framundan og eigum leiki við liðin í kringum okkur. Við þurfum að búa okkur undir það og ég held að ef við tökum jákvæðu hlutina núna, plús það að janúar er búinn og febrúar að koma, þá er það bara jákvætt fyrir okkur Haukamenn.“

„Við stefndum að því að komast upp úr fallsætinu í dag en verðum að gera það næsta föstudag þegar við fáum heimaleik. Það er ljóst að við verðum að fara að vinna leiki og það gera sér allir grein fyrir því í Hafnarfirðinum. Við erum búnir að vinna vel í okkar málum og þurfum að byggja á því jákvæða sem við gerðum í dag,“ sagði Ívar Ásgrímsson þjálfari Hauka að lokum.

Darri: Þetta gera góðu liðin
Darri Hilmarsson var stigahæstur hjá KR í kvöld.
Darri Hilmarsson var stigahæstur hjá KR í sigrinum gegn Haukum í kvöld. Hann skoraði 19 stig og setti niður mikilvægar þriggja stiga körfur.

„Við vorum ekki með mikla flugeldasýningu í kvöld. Við náðum ekki takti í leiknum og þriðji leikhluti var slappur hjá okkur. Við höfum verið taktlausir í janúar og nú losuðum við okkur við Kanann og það var öðruvísi holning á liðinu,“ sagði Darri og átti þá við Cedrick Bowen sem var sendur heim fyrr í dag.

„Í fyrsta leikhluta vorum við að fara mikið einn á einn í staðinn fyrir að láta boltann ganga aðeins meira. Við duttum í það í þriðja leikhluta líka. Þegar boltinn gengur betur þá auðveldar það lífið fyrir menn og ef við höldum því áfram þá erum við í góðum málum.“

Darri tók undir það að KR sýndi styrkleikamerki með því að vinna leiki án þess að spila vel.

„Þetta gera góðu liðin. Þau spila ekki sinn besta bolta en ná samt í úrslit. Janúarmánuður hefur ekki verið sérstakur en samt erum við taplausir. Það sýnir hversu megnugir við erum að spila kannski upp á 10 en samt ná sigrinum.“

Darri sagðist sannfærður um að KR myndi ná að bæta sinn leik og sagði mikilvæga leiki framundan hjá liðinu.

„Við þurfum að fara að finna gírinn. Við erum að fara í bikarhelgi og svo er stórleikur í Þorlákshöfn næstu helgi. Þetta er allt að koma, við vinnum í þessu,“ sagði Darri að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×