Körfubolti

Umfjöllun: Grindavík - Keflavík 85-92 | Annar sigurinn undir stjórn Friðriks Inga

Guðmundur Steinarsson í Röstinni í Grindavík skrifar
Amin Stevens skoraði 36 stig og tók 16 fráköst.
Amin Stevens skoraði 36 stig og tók 16 fráköst. vísir/anton
Heimamenn í Grindavík fengu nágranna sína frá Keflavík í heimsókn í kvöld en gestirnir höfðu betur, 92-85. Leikurinn fór fjörlega af stað, bæði lið að skora mikið og leikurinn hraður.  Ólafur Ólafsson fór fyrir sínum mönnum og var öflugur á báðum endum vallarins. Hjá Keflavík voru það Amin Stevens og Hörður Axel sem drógu vagninn hjá gestunum í upphafi leiks.

Það var nánast jafnt á öllum tölum i fyrri hálfleik í kvöld, mikið skorað og hraðinn í leiknum hélst í fyrri hálfleik. Undir lok fyrri hálfleiks voru það varamennirnir sem létu til sín taka.

Þorsteinn kom sjóðheitur af bekknum hjá heimamönnum og setti niður tvo þrista, Ágúst og Daði Lár svöruðu um hæl með sitthvorum þristnum. Staðan í hálfleik 48 – 46 fyrir Grindavík.

Keflvík byrjaði þriðja leikhluta af miklum krafti og náði fljótlega 10 stiga forystu. Munaði þar mestu um þátt Guðmundar Jónssonar sem að setti niður þrjá þrista í þessum leikhluta. Heimamenn i Grindavík virtust slegnir útaf laginu og heyrðist í stúkunni að það væri hálfgert hryggnustopp hjá þeim. Í loka leikhlutanum gerðu heima allt hvað þeir gátu til að minnka muninn og voru þeir ansi nálægt því, en allt kom fyrir ekki og gestirnir úr Keflavík fóru með sigur af hólmi 92-85 í bráðfjörugum leik.

Af hverju vann Keflavík?

Þeir nýttu skotin sín betur. Keflvíkingar voru í raun skynsamari en Grindvíkingar í sóknarleiknum. Boltinn gekk betur og þeir nýttu styrkleika Amin Stevens vel og keyrðu mikið inn í teiginn hjá Grindavík. Heimamenn skutu mikið fyrir utan þriggja stiga línuna og mörg af þeim þvinguð og ótímabær.

Bestu menn vallarins:

Amin Stevens var yfirburðar maður á vellinum í dag. Stevens skoraði 36 stig og var með 16 fráköst. Gestirnir frá Keflavík nýttu sér það að heimamenn eru ekki beint með stóran mann. Vissulega er Ómar þarna en hann mætti ofjarli sínum í kvöld.

Guðmundur Jónsson átti fínan leik en fékk sína fimmtu villu í þriðja leikhluta pínu klaufalega. Þá var Hörður Axel flottur í kvöld, stýrði sóknarleik liðsins vel, en hann þarf að nýta skotin sín betur hitti aðeins úr 3 af 12 skotum sínum.

Tölfræði sem vakti athygli

Vítanýting Keflvíkinga var léleg hitta úr 10 af 18 vítaskotum sínum. Munar þar mest um nýtinguna hjá Stevens en hann nýtti aðeins 6 af 13 vítaskotum sínum í leiknum. Svona slæm nýting getur hreinlega tapað leikjum fyrir liðið.

Þriggja stiga nýting Grindvíkinga var heldur ekkert til að hrópa húrra fyrir 11 af 42 skotum rötuðu rétta leið. Daði Lár nýtti tímann sinn vel í kvöld skilaði 60% nýtingu í skotum inn í teig og 66% nýtingu fyrir utan þriggja stiga línuna. Svona á að koma af bekknum og minna á sig.

Hvað gekk illa ?

Lewis Clinch gekk illa í kvöld. Hann skoraði ekki stig í 1.leikhluta og aðeins 1 stig í 4.leikhluta. Ef að Grindavík ætlar að komast langt í úrslitakeppninni þá verður Lewis og skila alvöru framlagi.

Svo mætti segja að varnarleikur liðanna hafi gengið hálfilla. Leikurinn hraður og mikið skorað. Það getur varla talist ásættanlegt að fá nálægt 30 stigum á sig í leikhluta.

Grindavík-Keflavík 85-92 (28-27, 20-19, 17-29, 20-17)

Grindavík: Ólafur Ólafsson 27/9 fráköst, Lewis Clinch Jr. 13/6 fráköst, Dagur Kár Jónsson 13, Þorleifur Ólafsson 10, Þorsteinn Finnbogason 9/4 fráköst, Ingvi Þór Guðmundsson 8/8 fráköst, Kristófer Breki Gylfason 3, Ómar Örn Sævarsson 2/6 fráköst.

Keflavík: Amin Khalil Stevens 36/16 fráköst, Guðmundur Jónsson 12, Hörður Axel Vilhjálmsson 10/8 fráköst/8 stoðsendingar, Daði Lár Jónsson 9/4 fráköst, Ágúst Orrason 9, Magnús Már Traustason 7/4 fráköst, Reggie Dupree 7, Davíð Páll Hermannsson 2.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×