Innlent

Umfangsmikil flugslysaæfing á Suðurnesjum

Farþegaflugvél þurfti að nauðlenda á Keflavíkurflugvelli eftir að eldur kom upp í vélinni. Þetta voru skilaboðin sem þátttakendur í flugslysaæfingu á Suðurnesjum fengu í dag.

Æfing sem þessi hefur gríðarlega þýðingu þar sem hún sýnir fram á virkni flugslysaáætlunar fyrir Keflavíkurflugvöll.

Reynt er að líkja fullkomlega eftir raunverulegu flugslysi til að þjálfa fólk í erfiðum aðstæðum.

Þeir sem tóku þátt í æfingunni eru björgunarsveitir, slökkvilið, lögregla og heilbrigðisstarfsmenn af öllum Suðurnesjum, og fleiri, auk mannskapar frá Reykjavík. Þá eru sjálfboðaliðar í hlutverkum farþega.

Fréttastofa kom á vettvang þegar verið var að flytja slasaða í öruggt skjól. Fulltrúar Rannsóknarnefndar flugslysa voru á staðnum og er þeim sem stjórna rannsókninni ekki ætlað að gefa fjölmiðlum upplýsingar í raunverulegum slysum, fyrr en staðan er skýr. Fréttamaður tók fullan þátt í æfingunni með því að reyna að sannfæra rannsóknarmenn um að koma í viðtal, en þeir stóðust prófið.

Þeir slösuðu voru síðan fluttir á sérstaka söfnunarstöð slasaðra þar sem ástand þeirra er metið og þeir flokkaðir eftir því hversu alvarleg meiðsli þeirra eru. Þá er sérstök söfnunarstöð í annarri byggingu fyrir látna.

Æfingin er ein sú stærsta sem haldin hefur verið hér á landi. Um 360 manns tóku þátt og kostnaðurinn hleypur á bilinu 15 til 20 milljónum króna.

Þrjú ár eru síðan svo umfangsmikil æfing hefur verið haldin hér á landi. Byrjað var að skipuleggja æfinguna fyrir um fjórum mánuðum. Hann hófst með endurskoðun á flugslysaáætlun, og því næst fræðslu til þátttakenda, og lauk svo með hinni eiginlegu æfingu í dag.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×