Skoðun

Um Vaðlaheiðargöng og nokkra áhrifaþætti umferðarþunga

Ari Teitsson skrifar
Að undanförnu hefur verið rætt hvort réttlætanlegt sé að veita ríkisábyrgð vegna lántöku til gerðar Vaðlaheiðarganga. Þar sem flestir kostnaðarþættir við gerð ganganna liggja fyrir er stærsti óvissuþátturinn, og þar með áhættuþáttur ríkisins, umferðarþungi um göngin á komandi árum.

Um þróun umferðar við breyttar aðstæður er auðvitað erfitt að spá, en huga má þó að grunnforsendum:

Byggð hefur eflst á Akureyri og nágrenni á undanförnum árum, enda bærinn helsta mótvægi við suðvesturhornið og höfuðstaður Norðurlands. Hvort grundvöllur er fyrir rekstri Vaðlaheiðarganga ræðst hins vegar fremur af því hvort einnig eigi að nýta tækifæri Þingeyjarsýslna þjóðinni til hagsbóta. Til þess stendur vilji beggja vegna Vaðlaheiðar en fleira þarf til:

Hagvöxtur og kaupgeta almennings ræður miklu um flutningaþörf og ferðamöguleika fólks.

Hvergi á Íslandi finnst meiri óbeisluð orka en í Þingeyjarsýslum. Nýtingu orkunnar heima í héraði hefur miðað hægar en heimamenn hafa kosið. Ljóst má vera að öflugri stuðningur við nýtingu orkunnar myndi styrkja svæðið.

Rekstur heilbrigðisþjónustu í Þingeyjarsýslum er nú í óvissu sem verður að eyða, en sú óvissa veikir óneitanlega búsetuskilyrði, þótt auknir flutningar sjúkra og særðra yfir Vaðlaheiði séu sjálfstæð rök fyrir jarðgöngum.

Jákvæð viðhorf til nýtingar fjölbreyttra tækifæra ferðaþjónustu í víðlendi Þingeyjarsýslna myndi styrkja svæðið.

Einnig mætti nefna skiptingu opinberrar þjónustu og starfa henni tengd milli landsvæða, stjórnun fiskveiða og vafalaust fleiri atriði sem miklu ráða um búsetuþróun.

Margt bendir því til að mat á rekstrargrundvelli Vaðlaheiðarganga sé öðru fremur mat á hagvaxtarþróun og vilja ráðandi afla til styrkingar búsetu og nýtingar landsgæða.

Á meðan sjálfsforræði héraða er takmarkað eru þessir þættir mjög háðir vilja og stefnu þeirra sömu einstaklinga sem á næstu dögum taka ákvörðun um framgang Vaðlaheiðarganga. Því má ætla að í afgreiðslu málsins á Alþingi megi að nokkru lesa framtíðarsýn þingmanna.




Skoðun

Sjá meira


×