Erlent

Um 58 prósent styðja ESB-aðild

Ivo Josipovic, forseti Króatíu, segir óábyrgt að láta tækifæri til að ganga í ESB úr greipum renna, þrátt fyrir erfitt efnahagsástand ríkja innan ESB.Nordicphotos/AFP
Ivo Josipovic, forseti Króatíu, segir óábyrgt að láta tækifæri til að ganga í ESB úr greipum renna, þrátt fyrir erfitt efnahagsástand ríkja innan ESB.Nordicphotos/AFP
Þrátt fyrir fjármálakreppu meðal ríkja Evrópusambandsins (ESB) segjast tæplega 58 prósent Króata styðja aðild landsins að sambandinu samkvæmt nýrri skoðanakönnun samkvæmt frétt á fréttavefnum EUobserver.

Þjóðaratkvæðagreiðsla verður haldin um ESB-aðild í Króatíu 22. janúar næstkomandi. Niðurstaða hennar er ekki bindandi fyrir stjórnvöld, en verði aðild samþykkt er áformað að Króatía verði 28. aðildarríki ESB hinn 1. júlí á næsta ári.

Stuðningur við aðild að ESB hefur aukist verulega frá því í apríl á síðasta ári, þegar skoðanakönnun sýndi að um 26 prósent vildu að Króatía gengi í ESB. Sú könnun var gerð skömmu eftir að Sameinuðu þjóðirnar sakfelldu tvo króatíska hershöfðingja fyrir stríðsglæpi, sem talið er hafa haft áhrif á afstöðu Króata til alþjóðasamfélagsins, að því er segir í frétt EUobserver.

Stjórnvöld í Króatíu standa nú fyrir herferð til að auka stuðning við aðild að ESB. Ivo Josipovic, forseti landsins, sagði fréttamönnum á laugardag að aðild og aðlögun að ESB væri landinu „algerlega nauðsynleg“, og tækifæri sem væri „óábyrgt“ að láta sér úr greipum renna. - bj



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×