Körfubolti

Um 45 stiga hiti inni í salnum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Íslensku stelpurnar ásamt þjálfurum á góðri stund.
Íslensku stelpurnar ásamt þjálfurum á góðri stund. mynd/sigríður inga viggósdóttir
Stelpurnar í U-18 ára landsliði Íslands enduðu í 4. sæti B-deildar Evrópumótsins í körfubolta sem lauk í fyrradag.

Íslenska liðið mætti því gríska í undanúrslitum á laugardaginn og var hársbreidd frá því að vinna og tryggja sér þar með sæti í A-deild.

Staðan var jöfn, 58-58, þegar um 20 sekúndur voru til leiksloka en íslensku stelpurnar fóru illa að ráði sínu á lokasekúndunum og þurftu að sætta sig við tap, 65-61. Á sunnudaginn tapaði íslenska liðið svo fyrir heimaliði Bosníu, 82-67, en sigur þar hefði einnig tryggt liðinu sæti í A-deild.

Sylvía Rún var valin í úrvalslið mótsins.mynd/sigríður inga viggósdóttir
„Þetta er besti árangur sem yngra landslið kvennamegin hefur náð og árangurinn var framar okkar vonum. Liðið var frábært á mótinu,“ sagði Ingi Þór Steinþórsson, þjálfari íslenska liðsins, í samtali við Fréttablaðið í gær en hann var þá staddur á flugvellinum í Sarajevo.

„Stelpurnar fengu mikla reynslu og þær fengu mikið hrós. Það var lífsgleði og stemning í kringum liðið,“ sagði Ingi sem var ósáttur við aðstæður í leikjunum um helgina en það var gríðarlega heitt inni í höllinni sem spilað var í.

„Það var eins og maður væri að stíga upp úr sundlaug, það lak af manni svitinn. Ég hugsa að það hafi verið 45 stiga hiti inni í salnum,“ sagði Ingi og bætti því við að tankurinn hafi einfaldlega verið tómur hjá íslenska liðinu í síðasta leiknum gegn Bosníu.

Þess má svo geta að Sylvía Rún Hálfdanardóttir var valin í fimm manna úrvalslið mótsins. Sylvía spilaði fantavel á EM og var með 16,7 stig, 10,7 fráköst, 2,0 stoðsendingar og 3,4 stolna bolta að meðaltali í leik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×