Innlent

Um 33 prósent segja koma til greina að kjósa nýtt framboð Guðmundar

Guðmundur Steingrímsson hefur stofnað nýtt framboð og hyggst bjóða fram í næstu þingkosningum.
Guðmundur Steingrímsson hefur stofnað nýtt framboð og hyggst bjóða fram í næstu þingkosningum.
Einn af hverjum þremur segir það koma til greina að kjósa nýtt framboð Guðmundar Steingrímssonar, samkvæmt skoðanakönnun sem MMR framkvæmdi 6. til 10 október síðastliðinn. Minnstur stuðningur við framboðið er meðal Sjálfstæismanna en mestur meðal Samfylkingarfólks.

MMR kannaði afstöðu fólks til þess hvort kæmi til greina að kjósa nýtt framboð Guðmundar. Af þeim sem tóku afstöðu sögðu 33,5 prósent að það kæmi til greina en meirihlutinn, eða 66,5 prósent sagðist ekki myndu kjósa framboðið.

Samkvæmt könnuninni var nokkur munur á afstöðu fólks til þess hvort það kæmi til greina að kjósa nýtt framboð Guðmundar eftir aldri, búsetu og sérstaklega eftir stuðningi við stjórnmálaflokka. Af þeim sem tóku afstöðu voru þeir sem bjuggu á höfuðborgarsvæðinu jákvæðari gagnvart framboðinu en þeir sem búa á landsbyggðinni.

Þannig sögðust 36,6% höfuðborgarbúa að það kæmi til greina að kjósa nýtt framboð Guðmundar en hlutfallið var 28,1% meðal fólks á landsbyggðinni.

Þeir sem voru á aldrinum 30 - 49 ára voru jákvæðari í garð framboðs Guðmundar því 39,4% þeirra sögðu það koma til greina að kjósa hann borið saman við 36,1% þeirra sem voru í yngsta aldurshópnum (19 - 29 ára) og 24,2% elsta aldurshópsins (50 - 67 ára).

Af þeim sem tóku afstöðu var stuðningsfólk Samfylkingarinnar líklegast til að gefa nýju framboðinu atkvæði sitt en stuðningsfólk Sjálfstæðisflokksins ólíklegast. Þannig sögðust 65,9% Samfylkingarfólks að það kæmi til greina að kjósa framboðið borið saman við 47,5%, stuðningsfólks Vinstri grænna, 17,4% stuðningsfólks Framsóknarflokksins og 7,4% stuðningsmanna Sjálfstæðisflokksins.

Nánar um könnunina hér.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×