Erlent

Úkraínuher segist munu ná Donetsk á sitt vald

Heimir Már Pétursson skrifar
Stjórnvöld í Úkraínu segjast vera við það að ná Donetsk borg á sitt vald og því svæði sem brakið úr Malaysian flugvélinni liggur. Yfir eitt þúsund manns hafa fallið í átökum stjórnarhersins og uppreisnarmanna frá því átök milli þeirra brutust út.

Íbúar í austurhluta Úkraínu eru fórnarlömb átaka uppreisnarmanna sem njóta stuðnings Rússa og stjórnarhersins, en uppreisnarmenn hafa einhliða lýst yfir stofnun tveggja sjálfstæðra ríkja í austur Úkraínu.

Margir íbúanna reyna að flýja átakasvæðin, en yfir eitt þúsund manns hafa fallið frá því átökin hófust. Þá þurftu rannskendur braksins af Malaysian flugvélinni frá að hverfa í gær vegna sprengjuárása og átaka í nágrenni flaksins.

Andriy Lysenko talsmaður öryggis- og varnarráðs Úkraínu sagði á fundi með fréttamönnum í dag að úkraínski herinn beitti hvorki stórskotaliði eða flugvélum til að ná borgum í austurhluta landsins á vald sitt.

„Úkraínuher mun ná Donetsk á sitt vald og bjarga um leið innviðum borgarinnar. En aðalmarkmið er að bjarga lífi þeirra íbúa sem enn hafast við í þessum borgum. Þeir verð þessa stundina fyrir stórskotaliðsárásum hryðjuverkamanna,“ sagði Lysenko.

Íbúar þessara borga eru milli steins og sleggju og þá kannski sérstaklega rússneskumælandi íbúar vegna þess að þeir hafa ýmist viljugir eða óviljugir verið dregnir inn í átök aðskilnaðarsinna og landsstjórnarinnar í Kænugarði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×