Körfubolti

Tyson-Thomas skoraði tæplega 70% stiga Njarðvíkur í óvæntum sigri

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Tyson-Thomas þegar hún var leikmaður Keflavíkur.
Tyson-Thomas þegar hún var leikmaður Keflavíkur. vísir/þórdís
Domino's deild kvenna hófst í kvöld með fjórum leikjum.

Í Borgarnesi unnu nýliðar Skallagríms sterkan sigur, 73-62, á Íslands- og bikarmeisturum Snæfells.

Carmen Tyson-Thomas gerði sér lítið fyrir og skoraði 53 stig þegar Njarðvík vann óvæntan þriggja stiga sigur, 77-74, á Val í Ljónagryfjunni.

Tyson-Thomas, sem tók einnig 18 fráköst, skoraði 68,8% af stigum Njarðvíkinga sem var spáð neðsta sætinu í Domino's deildinni.

Ína María Einarsdóttir átti einnig fínan leik í liði Njarðvíkur og skoraði 14 stig. Þær Tyson-Thomas gerðu því 67 af 77 stigum liðsins.

Mia Loyd skoraði 30 stig og tók 13 fráköst í liði Vals. Elín Sóley Hrafnkelsdóttir kom næst með 13 stig og fimm fráköst í sínum fyrsta deildarleik með Val.

Ragna Margrét Brynjarsdóttir skoraði 10 stig fyrir Stjörnuna og tók átta fráköst.vísir/anton
Stjarnan vann góðan fimm stiga útisigur á Keflavík, 56-61.

Danielle Victoria Rodriguez fór fyrir Stjörnuliðinu með 25 stigum og 12 fráköstum. Ragna Margrét Brynjarsdóttir kom næst með 10 stig og átta fráköst.

Birna Valgerður Benónýsdóttir var stigahæst í liði Keflavíkur með 14 stig. Liðið í heild sinni hitti afar illa í kvöld og erlendi leikmaðurinn, Dominique Hudson, ekki neitt. Hún skoraði ekki stig í leiknum og munaði um minna.

Ashley Grimes skoraði 12 stig fyrir Grindavík.vísir/anton
Frábær 2. leikhluti lagði grunninn að sigri Grindvíkinga á Haukum. Lokatölur 78-63, Grindavík í vil.

Staðan eftir 1. leikhluta var 18-16 en í 2. leikhluta var eins og Grindavík hefði sett lok á körfuna sína. Haukar skoruðu aðeins fjögur stig í leikhlutanum gegn 30 hjá Grindavík sem leiddi því með 28 stigum í hálfleik, 48-20.

Í seinni hálfleik gáfu Grindvíkingar aðeins eftir og Haukar löguðu stöðuna. Sigur þeirra gulu var þó aldrei í hættu.

Ingunn Embla Kristínardóttir og Ingibjörg Jakobsdóttir skoruðu 15 stig hvor fyrir Grindavík og Íris Sverrisdóttir kom með 13 stig af bekknum.

Anna Lóa Óskarsdóttir og Sólrún Inga Gísladóttir voru stigahæstar í liði Hauka með  14 stig hvor.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×