Enski boltinn

Tvö mörk frá Sakho í öruggum sigri West Ham

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Diafra Sakho skoraði tvö í kvöld og fagnar hér öðru þeirra með liðsfélögum sínum.
Diafra Sakho skoraði tvö í kvöld og fagnar hér öðru þeirra með liðsfélögum sínum. Vísir/Getty
West Ham átti ekki í miklum vandræðum í kvöld með lið Lusitanos frá Andorra og vann 3-0 sigur í fyrri leik liðanna í forkeppni Evrópudeildar UEFA.

West Ham fékk sæti sitt í Evrópudeildinni vegna prúðmennsku liðsins en þurfti þar með að hefja nýtt tímabil aðeins 40 dögum eftir að því síðasta lauk.

Diafra Sakho skoraði tvö mörk í leiknum og James Tomkins skoraði þriðja markið. Sakho skoraði fyrra markið sitt með skalla á 40. mínútu eftir sendingu Mauro Zarate en það síðara skoraði hann rétt fyrir hálfleik eftir sendingu frá Morgan Amalfitano.

James Tomkins skoraði síðan þriðja markið með skalla eftir fyrirgjöf Matt Jarvis eftir tæplega klukkutíma leik.

Slaven Bilic verður knattspyrnustjóri West Ham á komandi tímabili en hann var bara í stúkunni í kvöld og stýrði ekki liðinu.

Miðjumaðurinn Reece Oxford, sem er aðeins sextán ára gamall, spilaði þennan leik og varð þar með yngsti leikmaðurinn í sögu West Ham.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×