Innlent

Tveir handteknir í Vestmannaeyjum

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
vísir/pjetur
Lögreglan í Vestmannaeyjum handtók tvo menn í kringum tvítugt á föstudag fyrir að hafa brotist inn í hús við Bröttugötu í Vestmannaeyjum og stolið þaðan ýmsum verðmætum. Úlpu var meðal annars stolið en annar maðurinn var í umræddri úlpu þegar hann var handtekinn. Mennirnir voru undir áhrifum áfengis og voru þeir vistaðir í fangageymslu þar til víman rann af þeim. Við yfirheyrslu síðar sama dag viðurkenndu þeir að hafa farið inn í húsið en kváðust hafa farið húsavillt. Sá sem var í úlpunni kvaðst hafa tekið hana í misgripum.

Eitthvað var um pústra í Vestmannaeyjum um helgina en fór skemmtanahald fram með ágætum. Í tilkynningu frá lögreglunni segir að ein kæra liggi fyrir vegna brota á áfengislögum en um var að ræða ungan mann sem hafði verið til vandræða af einum af skemmtistöðum bæjarins, sökum ölvunar. Honum var komið til sína heima og varð ekki til frekari vandræða. Þá liggur önnur kæra fyrir vegna brota á umferðarlögum en um var að ræða ólöglega lagningu ökutækis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×