Skoðun

Tveir ávextir

Þegar árangur þróunarsamvinnu og hjálparstarfs er metinn er eðlilegt að rýnt sé í tölur. Þær segja okkur m.a. að börnum sem sækja skóla í þróunarríkjum hefur fjölgað um 40 milljónir á átta árum. Á bak við slíkar tölur eru þó einstaklingar sem eiga sínar fjölskyldur og heyja sína lífsbaráttu í gleði og sorg, líkt og við öll. Tveir slíkir einstaklingar og „ávextir“ þróunarsamvinnu eru okkur ofarlega í huga.

Sá fyrri heitir Omsula og er 18 ára drengur frá Kenýa. Móðir hans dó af barnsförum þegar hann var 5 ára gamall og nokkrum árum síðar lést faðir hans. Omsula fór þá með eldri bróður sínum til Nairobí. Bróðir hans fékk vinnu en þénaði aðeins 3 dollara á viku. Það dugði ekki fyrir mat, skólagjöldum og húsaleigu og varð fátæktin til þess að Omsula flutti alveg á götuna þegar hann var 12 ára. Hann sameinaðist gengi götustráka og leitaði í vímuefni til að afbera þjáningarnar. Eftir ár á götunni frétti hann af heimili ABC barnahjálpar og komst þangað. Hann er nú í góðum framhaldsskóla og dreymir um að verða dómari. Hann er afar þakklátur Þórunni, starfsfólki ABC í Kenýa og stuðningsaðila sínum á Íslandi fyrir að gefa sér tækifæri.

Hinn „ávöxturinn“ heitir Refilwe Motlhanka og er frá Botsvana. Heimsæki maður Disney World í Flórída á maður líklega ekki von á því að starfsmaðurinn sem tekur á móti manni sé uppvaxið munaðarlaust barn frá Afríku sem á þróunarsamvinnu allt að þakka. Refilwe og fjögur systkini hennar lentu ung á götunni en fengu svo móður og heimili í SOS barnaþorpi. Með hjálp styrktarforeldra gekk hún menntaveginn og bauðst síðan að fara til Flórída og vinna þar sem starfsnemi. Í dag starfar hún hjá Stanbic bankanum í Botsvana og lifir góðu lífi.

Yfir hundrað þúsund fyrrverandi styrktarbörn starfa nú sem kennarar, flugstjórar, kokkar, endurskoðendur, þingmenn, félagsráðgjafar o.fl. um allan heim.

Þróunarsamvinna ber ávöxt.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Er þetta eðli­legt?

Guðrún Árnadóttir,Guðrún Tara Sveinsdóttir,Hekla Kollmar,Þorgerður Jörundsdóttir skrifar

Sjá meira


×