Innlent

Tveggja og hálfs árs fangelsi fyrir nauðganir

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/Pjetur
Héraðsdómur Norðurlands eystra dæmdi á dögunum mann í tveggja og hálfs árs fangelsi fyrir nauðgun. Maðurinn var ákærður fyrir tvær nauðganir, annars vegar í október 2012 og hins vegar desember 2012, auk þess var hann kærður fyrir að þvinga konu til munnmaka. Einnig er hann kærður fyrir að hafa þröngvað fingrum í leggöng og endaþarm konunnar.

Maðurinn og konan áttu í sambandi þegar atvikin þrjú áttu sér stað. Þau stunduðu samfarir þar sem hann beitti hana valdi með samþykki beggja, einkum með flengingum en einnig með því að hann hafi yfirbugað hana líkamlega og síðan haft samfarir við hana, eins og segir í dómnum.

Maðurinn hélt því fram að samfarirnar hefðu ekki verið knúnar áfram með ólögmætri nauðung af hans hálfu. Þær hafi verið á sömu nótum og aðrar sadó-masókískar samfarir sem þau hafi stundað. Hún hefði haft tögl og haldir í sambandi þeirra og sýnt stöðugan áhuga á frekara kynlífi meira að segja eftir meint kynferðisbrot.

Dómurinn taldi sannað að maðurinn hefði haft samfarir við konuna og beitt til þess valdi gegn vilja hennar. Þau hafi verið hætt saman og hún neitað honum um samfarir. Það hafi hann ekki samþykkt.

„Með tilliti til þess að brotaþoli hafði daginn áður slitið sambandi þeirra og telja verður sannað að hún greini rétt frá því að hún hafi sagt að hann væri ekki að fara að fá að ,,ríða núna“, þykir hafið yfir skynsamlegan vafa að ákærða hafi ekki getað dulist á verknaðarstundinni að samfarirnar væru ekki með samþykki brotaþola að þessu sinni,“ segir í dómnum.

Konan kærði manninn einnig fyrir að hafa þvingað sig til munnmaka og nauðgað sér þann 15. desember 2012 í heimahúsi hans. Það kvöld sendi faðir mannsins, sem staddur var í sama húsi, syni sínum skilaboð og spurði son sinn hvort hann væri að kæfa konuna. Benti hann syni sínum á að konan hefði beðið hann um að hætta. Þá sagðist hann einnig ætla að kalla til lögreglu.

Maðurinn var sakfelldur fyrir tvær nauðganir en sýknaður af ákæru um þvingun til munnmaka. Þá var hann sakfelldur fyrir að þröngva fingrum í leggöng og endaþarm konunnar. Hann var dæmdur í fangelsi í tvö og hálft ár og til þess að greiða konunni 1,2 milljónir króna í miskabætur og 1,8 milljónir í sakarkostnað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×