Innlent

Tvær nauðganir til viðbótar kærðar

Lögreglan á Selfossi rannsakar nú fjórar nauðgunartilkynningar. Þar af hafa tvær verið kærðar formlega.
Lögreglan á Selfossi rannsakar nú fjórar nauðgunartilkynningar. Þar af hafa tvær verið kærðar formlega. Mynd/óskar P. Friðriksson
Tvær nauðganir sem áttu sér stað um verslunarmannahelgina voru kærðar í gær. Kona á þrítugsaldri kærði mann til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu fyrir nauðgun og hefur hann verið yfirheyrður. Nauðgunin er sögð hafa átt sér stað í heimahúsi, en maðurinn og konan þekkjast. Maðurinn ber fyrir sig minnisleysi, samkvæmt upplýsingum frá lögreglu.

Þá barst lögreglu önnur kæra vegna nauðgunar á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Selfossi, sem gat ekki veitt viðtal vegna anna, eru nú fjögur nauðgunarmál til rannsóknar þar eftir Þjóðhátíð, en þar af hafa tvær verið kærðar.

Einn maður situr í gæsluvarðhaldi og rennur úrskurðurinn út í dag. Maðurinn kærði gæsluvarðhaldsúrskurðinn til Hæstaréttar, þar sem hann var staðfestur.

Lögreglan á Selfossi lýsir nú eftir vitnum að síðari nauðguninni sem var kærð í gær, en hún mun hafa átt sér stað aðfaranótt mánudagsins 1. ágúst á tímabilinu frá klukkan 1.30 til 2 við hljóðskúr í Herjólfsdal. Lýst er eftir vitnum að átökum manns eða tveggja manna við konu á þrítugsaldri á þessum stað á þessum tiltekna tíma.

Neyðarmóttökum sjúkrahúsa víðs vegar um landið hafa borist tilkynningar um að minnsta kosti tíu nauðganir eftir helgina, samkvæmt fréttum RÚV í gærkvöld. Þar af voru sex á Þjóðhátíð í Eyjum.

Páll Scheving Ingvarsson, formaður Þjóðhátíðarnefndar, vill láta setja upp eftirlitsmyndakerfi í Herjólfsdal fyrir næstu hátíð. Þá hafa Stígamót og Nei-hópurinn sagt að ekki sé útilokað að samtökin hafi sjálfboðaliða í Eyjum á næsta ári, verði þess óskað.

- sv



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×