Viðskipti erlent

Tuttugu og fimm féllu á álagsprófinu

Þýskaland og AP / Óli Kristján Ármannsson skrifa
Fólk á gangi fram hjá útibúi bankans Monti dei Paschi di Siena í Róm. Bankinn er sá þeirra þrettán banka sem Seðlabanki Evrópu segir vanbúna til að standast framtíðaráföll, sem verst stendur. Alls féllu 25 bankar á prófinu en tólf hafa þegar barið í brestina.
Fólk á gangi fram hjá útibúi bankans Monti dei Paschi di Siena í Róm. Bankinn er sá þeirra þrettán banka sem Seðlabanki Evrópu segir vanbúna til að standast framtíðaráföll, sem verst stendur. Alls féllu 25 bankar á prófinu en tólf hafa þegar barið í brestina. Fréttablaðið/AP
Þrettán af 130 stærstu bönkum Evrópu vantar samtals 10 milljarða evra (1.530 milljarða króna) til að geta tekist á við framtíðaráföll.

Í kynningu á álagsprófum Seðlabanka Evrópu í gær sögðu fulltrúar bankans að meiri kröfur hefðu verið gerðar en í sambærilegum yfirferðum á fjárhag fjármálastofnana árið 2011 og 2010. Í þeim prófum voru heilbrigðisvottorð gefin bönkum sem síðar þurftu á aðstoð að halda.

Seðlabanki Evrópu segir að 25 bankar hafi þurft styrkari eiginfjárstöðu. Af þeim hafa tólf þegar komið á úrbótum á þeim mánuðum sem prófanir bankans hafa staðið. Þeir bankar eru sagðir hafa aflað fjármuna með því að gefa út nýtt hlutafé, eða með því að selja frá sér áhættusamar fjárfestingar eða lánastarfsemi.

Bankarnir þrettán sem eftir standa hafa hálfan mánuð til þess að leggja fyrir Seðlabanka Evrópu áætlun um hvernig þeir ætli að styrkja eiginfjárgrunninn og allt að níu mánuði til að hrinda þeim áætlunum í framkvæmd.

Daniele Nouy kynnir niðurstöður álagsprófana á evrópskar fjármálastofnanir í Frankfurt í Þýskalandi í gær.Fréttablaðið/AP
Álagsprófið á að tryggja að bankar, sem sumir hverjir hafa verið tregir til útlána vegna vondra fjárfestinga sem hafa íþyngt þeim, verði reiðubúnir til þess að leggja lið og hafi bolmagn til útlána þegar evrópskt efnahagslíf tekur við sér að nýju. Bankar sem standa höllum fæti eiga ekki að standa efnahagsbata fyrir þrifum.



Í athugun sinni kannaði Seðlabanki Evrópu virði eigna bankanna og lagði fyrir þá álagspróf þar sem reynt var að greina hvernig þeim myndi vegna í efnahagssamdrætti.


Flestir, eða fjórir, bankanna sem enn standa höllum fæti eru ítalskir.

Tveir bankanna eru grískir, tveir frá Slóveníu og svo er einn frá Kýpur, einn fransk-belgískur, einn austurrískur, einn írskur og einn frá Portúgal.




Bankinn sem mest hallar á er ítalski bankinn Monte dei Paschi di Siena, en hann er sagður þurfa að styrkja eiginfjárstöðu sína um 2,11 milljarða evra (323 milljarða króna).




Fimm bankanna eru sagðir geta komist fyrir vanda sinn með því að halda sig við umbótaáætlanir sem þegar hefur verið hrint í framkvæmd. Það eru Eurobank og Þjóðarbankinn í Grikklandi, Nova Ljubljanska Banka og Nova Kreditna í Slóveníu og Dexia í Belgíu.




Flesta hinna bankanna vantar undir einum milljarði evra (153 milljarðar króna) og í nokkrum tilvikum undir 200 milljónum evra (30,6 milljörðum króna). 




Fjórða næsta mánaðar tekur Seðlabanki Evrópu við fjármálaeftirliti í Evrópu. 







Fleiri fréttir

Sjá meira


×