Erlent

Tugir bankamanna saksóttir á Spáni

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Rodrigo Rato, vinstra megin við miðju myndarinnar, ásamt Miguel Blesa, fyrrverandi bankastjóra Caja Madrid, í réttarsal í gær.
Rodrigo Rato, vinstra megin við miðju myndarinnar, ásamt Miguel Blesa, fyrrverandi bankastjóra Caja Madrid, í réttarsal í gær. vísir/epa
Réttarhöld eru hafin á Spáni yfir 65 bankamönnum, þar á meðal Rodrigo Rato sem var yfirmaður Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á árunum 2004-2007. Hann var einnig um hríð fjármálaráðherra Spánar fyrir Lýðflokkinn, helsta hægriflokk landsins.

Mennirnir eru sakaðir um að hafa misnotað aðstöðu sína hjá bankanum Bankia, sem bjarga þurfti með fé úr ríkissjóði árið 2012, og dregið sér samtals um 12 milljarða evra, en sú fjárhæð samsvarar um það bil 1.500 milljörðum króna.

Þeir eru sagðir hafa notað „óopinber” kreditkort  til að greiða fyrir lúxusvarning, ferðalög, hótelgistingu, dýran fatnað og skemmtanir af ýmsu tagi. Þetta eru þeir sagðir hafa gert á árunum frá 2003 og allt fram til 2012, sumir hverjir í það minnsta.

Þegar bankanum var bjargað árið 2012 urðu um 200 þúsund manns fyrir fjárhagstjóni þegar hlutafé þeirra í bankanum varð verðlaust.

Rato sagði af sér sem bankastjóri Bankia árið 2012, stuttu áður en hann fór næstum því á hausinn. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×