Erlent

Trump hristir hressilega upp í kosningaliði sínu

Atli Ísleifsson skrifar
Donald Trump.
Donald Trump. Vísir/AFP
Bandaríski forsetaframbjóðandinn Donald Trump hefur hrist verulega upp í kosningaliði sínu í annað sinn á síðustu tveimur mánuðum. Búið er að skipa nýjan kosningastjóra og nýjan framkvæmdastjóra.

Kellyanne Conway, sérfræðingur í skoðanakönnunum, hefur verið skipuð kosningastjóri framboðsins og Stephen Bannon, starfsmaður vefsíðunnar Breitbart News, hefur verið skipaður framkvæmdastjóri. Paul Manafort verður áfram formaður framboðsins.

Trump segir í samtali við AP að nýja fólkið sé frábært, sannkallaðir sigurvegarar.

Fylgi Trumps hefur dalað umtalsvert síðustu vikurnar og hefur Hillary Clinton mælst með nokkurt forskot í flestum þeim ríkjum þar sem demókratar og repúblikanar heyja hvað harðasta baráttu og úrslit kosninganna eru talin munu ráðast.

Skipanirnar koma nú þegar einungis 82 dagar eru til kosninganna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×