Erlent

Trump hneykslaður á umfjöllun dómstóla um ferðabannið og segir þá „svo pólítíska“

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna.
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna. Vísir/EPA
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, er hneykslaður á þeim tíma sem áfrýjunardómstóllinn í San Francisco í Bandaríkjunum hefur tekið sér til þess að fjalla um umdeilt ferðabann forsetans.

„Mér finnst það ótrúlegt að við séum með dómsmál sem taki svona langan tíma,“ sagði Trump um umfjöllun dómstólsins á fundi með löggæslumönnum í Washington í dag.

Dómstóllinn íhugar nú hvort að ferðabann til Bandaríkjanna sem Donald Trump forseti setti á íbúa sjö ríkja á dögunum standist lög. Þrír dómarar eru í dómnum og hafa þeir nú hlustað á rök lögmanna beggja aðila, en dómari í Washington ríki úrskurðaði á dögunum að bannið skyldi afnumið.

Á fundinum vitnaði Trump í texta tilskipunarinnar sem fjallar um ferðabannið og sagði Trump að tilskipunin væri vel samin og að jafnvel illa læs grunnskólanemi gæti skilið hana.

Trump sagðist hafa fylgst með umfjöllun dómstólsins um ferðabannið og að hann hafi vart trúað sínum eigin eyrum.

„Ég vil ekki segja að dómstóll sé hlutdrægur, þannig að ég ætla ekki að segja að hann sé hlutdrægur. Dómstólar virðast samt vera svo pólítiskir og það væri frábært fyrir réttarkerfið okkar ef þeir gætu lesið yfirlýsingu og gert það sem er rétt,“ sagði Trump.

Ekki er búist við að áfrýjunardómstóllinn kveði upp dóm sinn fyrr en í fyrsta lagi á morgun. Hver svo sem niðurstaðan verður er þó fastlega gert ráð fyrir því að bannið muni að lokum fara fyrir Hæstarétt Bandaríkjanna.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×