Innlent

Trúðurinn með gullna hjartað verðlaunaður

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Peggy Helgason virðir fyrir sér verðlaunin sem hún hlaut. Fyrir aftan hana er Sigurður Helgason, eiginmaður hennar.
Peggy Helgason virðir fyrir sér verðlaunin sem hún hlaut. Fyrir aftan hana er Sigurður Helgason, eiginmaður hennar.
Barnaheill – Save the Children á Íslandi fögnuðu í gær 25 ára afmæli í samkomusal Nauthóls í Nauthólsvík. Af því tilefni var árleg Viðurkenning Barnaheilla einnig afhent, en hún er veitt fyrir sérstakt framlag í þágu barna og mannréttinda þeirra. Það var Peggy Oliver Helgason iðjuþjálfi sem hlaut verðlaunin. Peggy hefur verið kölluð trúðurinn með gullna hjartað. 

Vigdís Finnbogadóttir er verndari Barnaheilla og stofnfélagi númer eitt. Það var fagfólk á Barna- og unglingageðdeild Landsspítalans sem hafði frumkvæði að því sumarið 1988 að stofna samtök sem hefðu það að meginmarkmiði að auka rétt barna í samfélaginu. Vigdís studdi dyggilega við undirbúningsstarfið og Barnaheill voru svo stofnuð rúmu ári síðar, 24. október 1989.



Helstu verkefni Barnaheilla þann aldarfjórðung sem samtökin hafa starfað eru:



1993 Geldingalækur á Rangárvöllum opnaður sem heimili fyrir börn í vanda

1997 Barnaspítala Hringsins afhent íbúð fyrir foreldra langveikra barna af landsbyggðinni

1999 Skólar byggðir í Kambódíu og kennarar þjálfaðir eftir átök í landinu

2001 Ábendingalína um óviðeigandi og ólöglegt efni á neti opnuð

2007 Uppbyggingar- og menntunarverkefni í Norður-Úganda

2009 Rósin, minnisvarði til heiðurs börnum sem eiga um sárt að binda opnuð í Laugardal

2009 Gagnvirki fræðsluvefurinn barnasattmali.is opnaður

2009 Bann við að beita börn líkamlegri og andlegri refsingu lögfest á Alþingi eftir athugasemdir Barnaheilla vegna dóms hæstaréttar sem braut gegn Barnasáttmálanum

2010 Átta ára drengur óskar eftir íbúð – skýrsla Barnaheilla um heimilisofbeldi

2012 Tannheilsa íslenskra barna – átak og undirskriftasöfnun sem leiddi til lagabreytinga

2014 Skýrsla Barnaheilla og Evrópusamtakanna um fátækt í Evrópu.



Auk útgáfu fjölda rita og veggspjalda, málþinga og ráðstefna sem samtökin hafa staðið fyrir til að vekja athygli á og ná fram breytingum á ýmsum málum er varða börn.

Barnaheill – Save the Children á Íslandi eru frjáls félagasamtök. Helstu áherslur eru á að standa vörð um réttindi barna, baráttu gegn ofbeldi á börnum, heilbrigðismál og að efla áhrifamátt barna í íslensku samfélagi. Frá upphafi hafa samtökin haft Barnasáttmálann að leiðarljósi og lagt áherslu á starf innanlands. Samtökin vinna að mannréttindum barna með því að vera málsvari þeirra, efla menntun og veita mannúðar- og neyðaraðstoð þegar hörmungar dynja yfir samfélög.



Barnaheill eiga aðild að alþjóðasamtökunum Save the Children sem voru stofnuð í Bretlandi árið 1919 og starfa nú í 120 löndum. Í tilkynningu segir að þetta séu stærstu alþjóðlegu frjálsu félagasamtök sem starfa í þágu barna í heiminum. Stofnandi þeirra, Eglantyne Jebb, var með fyrstu baráttumanneskjum fyrir mannréttindum barna. Hún skrifaði stefnuyfirlýsingu samtakanna árið 1921 sem síðar varð grunnurinn að barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×