Erlent

Trudeau hitti Trump: „Mun ekki lesa honum pistilinn vegna múslímabannsins“

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Donald Trump og Justin Trudeau.
Donald Trump og Justin Trudeau. Vísir/EPA
Forsætisráðherra Kanada, Justin Trudeau, sagði á blaðamannafundi með Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, að hann muni ekki lesa Trump pistilinn vegna tilskipunar þess síðarnefnda um flóttamenn. Trudeau er um þessar mundir í opinberri heimsókn í Bandaríkjunum.

„Það síðasta sem Kanadabúar búast við af mér, er að ég heimsæki ráðamenn annarra landa og lesi yfir hausamótunum á þeim um það hvernig þeir eigi að stjórna ríki sínu.“

Á blaðamannafundinum lögðu báðir þjóðarleiðtogarnir áherslu á sameiginleg markmið ríkjanna tveggja og efnahagslegt samstarf.

Sjá einnig: Funda á morgun: Búist við að Trudeau fari sér hægt í að gagnrýna Trump

Þegar þeir voru spurðir út í málefni sýrlenskra flóttamanna komu þó mismunandi stefnur þeirra berlega í ljós.

Trump varði þar ferðabann sitt og sagði að hann „vilji hafa risastóra fallega og opna hurð“ en að „það sé ekki hægt að hleypa röngu fólki inn fyrir landamærin.“

Trudeau sagði hins vegar að Kanadabúar leggi á það áherslu að „tala fyrir stefnum um opinn heim“ og muni beita sér fyrir því að vera „jákvæð fyrirmynd,“ þegar kemur að málefnum flóttamanna.

Þeir voru hins vegar báðir sammála um mikilvægi efnahagslegrar samvinnu til þess að tryggja sköpun starfa beggja vegna landamæra ríkjanna tveggja.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×