Viðskipti innlent

Trúa enn á metanið þrátt fyrir mikið hrun

Haraldur Guðmundsson skrifar
Norðurorka á Akureyri og Olís opnuðu í september metanafgreiðslustöð sem getur séð 600 fólksbílum á ári fyrir eldsneyti.
Norðurorka á Akureyri og Olís opnuðu í september metanafgreiðslustöð sem getur séð 600 fólksbílum á ári fyrir eldsneyti. Vísir/Auðunn
Nýskráningar metanbíla drógust saman um 82 prósent á fyrstu tíu mánuðum ársins samanborið við sama tíma árið 2012. Bifreiðum sem hefur verið breytt í metanbíla, og voru nýskráðar á þessu ári, fækkaði sömuleiðis en úr 175 í sex.

Þetta kemur fram í tölum sem Samgöngustofa tók saman fyrir Fréttablaðið. Samkvæmt þeim hafa alls 34 nýskráðir metanbílar farið á götuna á árinu en á fyrstu tíu mánuðum 2012 voru þeir 184. Vinsældir bílanna halda því áfram að minnka en töluverður samdráttur var einnig í nýskráningum í fyrra miðað við árin á undan.

„Við höfum í fyrsta lagi rakið samdráttinn til þess að metanbílum fjölgaði hér gríðarlega hratt á sama tíma og eldsneytið var einungis selt á einum útsölustað. Síðan fór hér í gang ákveðið gullgrafaraæði þegar bílum sem voru ekki hannaðir til að brenna metani var breytt í metanbíla. Þá komu upp ýmis vandamál og fúsk sem komu óorði á bílana að ósekju,“ segir Özur Lárusson, framkvæmdastjóri Bílgreinasambandsins.

Olíufélögin Skeljungur, Olís og N1 hafa nú öll opnað metanafgreiðslustöðvar á höfuðborgarsvæðinu og einnig var opnuð stöð á Akureyri í byrjun september.

„Það er búið að bæta úr þessu og því bind ég vonir við að sala á metanbílum aukist aftur og að við nýtum áfram þetta eldsneyti sem við eigum hér bundið í öskuhaugum landsins í stað þess að sleppa því út í andrúmsloftið,“ segir Özur.

Sigurður Ástgeirsson, aðstoðarframkvæmdastjóri Vélamiðstöðvarinnar, sem hefur breytt bílum í metanbíla frá árinu 2006, tekur undir með Özuri um að aðgengi að metani hafi sett strik í reikninginn.

„Hins vegar er ég ekki sammála því að ýmsum vandamálum í tengslum við breytingar á bílum sé hér um að kenna. Það komu upp hin og þessi breytingarverkstæði en þau voru öll undir eftirliti Umferðarstofu og það var mikil vinna lögð í úttektir á þessum bílum,“ segir Sigurður.

„Menn gengu einfaldlega á vegg því metanið var mjög ódýrt eftir hrun, í samanburði við bensín, og þess vegna fjölgaði metanbílum mjög hratt á sama tíma og dælunum fjölgaði ekki. Við byrjuðum því kannski öll á vitlausum enda en nú er nýtt upphaf og ég held að það sé nú komið að bílaumboðunum að svara kalli þeirra fyrirtækja sem hafa fjárfest í þessu.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×